Næsta skref tekið

Skálmöld – Með vættum
SOG 201, 2014

4 stjörnur

Skálmöld - Með vættum

Skálmöld – Með vættum

Skálmöld var stofnuð haustið 2009 og hlutirnir gerðust strax hratt. Þeir félagar fóru í upptökur og gáfu út Baldur 2010 og Börn Loka 2012 sem báðar slógu eftirminnilega í gegn – einkum hjá fólki á miðjum aldri sem hingað til hefði fundist slík tónlist óaðgengileg. Í nóvember 2013 hélt sveitin síðan ógleymanlega tónleika ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Karlakór Reykjavíkur, Hymnodiu og Barnakór Kársness í Eldborgarsal Hörpu og náðu að gefa út tvöfalda plötu (cd og dvd) með þeim um miðjan desember og seldu í á fimmta þúsund eintökum síðustu vikuna fyrir jól. Þar með var síðasta vígið fallið og bítlar jafnt sem biðukollur fíluðu tónlistina þegar búið var að spyrða hana við Sinfó. Skálmöld fylgdi þessum ofurvinsældum sínum eftir með tónleikahaldi hér heima og erlendis allt árið 2014, vöktu mikla athygli með þátttöku sinni í Reykjavíkur mararþoninu og tóku samhliða þessu öllu upp plötuna Með vættum sem hér verður fjallað um.

Sveitin hefur í raun notið óvenju mikilla vinsælda sé til þess tekið að hún tekur ekki mark á lögmálum markaðssetningar poppmenningarinnar, t.a.m. eru flest lögin „helvítis hávaði“ og í lengri kantinum og stríða þannig gegn helstu „reglunum“ en þeir Skálmaldarliðar hafa vegið það upp með töffaramennskunni, einlægninni, vel ortum textum og vísan til menningararfsins –  og svo auðvitað sjálfri tónlistinni sem er jú vissulega þung fyrir „almenning“ en um leið skemmtileg.

Tónlistin hefur þó ekki verið dæmigerð sem slík þar sem þeir Skálmeldingar hafa nýtt sér hina sinfónísku strengi sem fyrr segir, ólíkar raddir þeirra Björgvins, Baldurs og Gunnars hafa einnig átt sinn þátt í að brjóta upp tónlistina og svo má ekki gleyma óbóinu sem Gunnar hljómborðsleikari nýtir á hárréttum augnablikum og á ekki hvað minnstan þátt í að gera stundum níðþungt rokkið allt að því þjóðlegt á köflum.

Á þessari nýju plötu er manni hins vegar heldur óþyrmilega kippt út úr strengjastemmingunni og hér er boðið upp á harðara rokk og að mestu án aukaefna. Og þá er hætt við að miðaldra fjölskyldufeðurnir yfirgefi skútuna og taki aftur saman við Bubba, Bó & co. Eða hvað?

Mér er til efs að nokkur íslensk plata hafi byrjað með viðlíka látum, ekkert intró – bara rokk frá fyrsta takti. Þannig byrjar Að vori og í kjölfarið fylgir Með fuglum sem er ekki minni keyrsla. Að sumri sem er flott lag hefur að geyma sterkari melódíu, sömuleiðis Að hausti sem er besta lag plötunnar að mínu mati ásamt hinu kaflaskipta Með jötnum og Að vetri. Plötunni er lokað með Með griðungum sem segja má að séu tvö lög, reyndar eins og mörg önnur lög á plötunni en það er einkenni sveitarinnar að kaflaskipta lög sín, sem gerir þau auðvitað stærri – og betri. Með griðungum á fullkomlega við sem lokalag og mér finnst síðari hluti plötunnar betri en sá fyrri þótt sá fyrri sé svosem ekkert slor. Rétt er að nefna að hér er ritað út frá geislaplötuútgáfunni en vínylútgáfan inniheldur tvö live-aukalög.

Um frammistöðu hvers og eins á plötunni þarf varla að fjölyrða, þeir eiga allir stórleik og þótt oft heyrist tekið svo til orða að eftir því sem menn hækki meira í hljóðfærunum sínum því verri spilamenn séu þeir – þá á slíkt algjörlega ekki við þarna. Og þessi trommuleikur er náttúrulega ekki hægt!

Sem fyrr er mikið lagt í textana þótt viðfangsefnið eigi sér ekki jafn mikla tengingu við norrænu goðafræðina og áður, hér er sögð lífssaga konu sem gefur goðunum reyndar lítið eftir í bardögum með vættum landsins, sem skírskotað er til í lagatitlunum. Snæbjörn (sem semur textana) hefur bragfræðina á hreinu og tilraunir hans með mismunandi bragarhætti lofa góðu, og það er ekki oft sem gæði rokktexta eru jafn mikil og hér sést.

Sömuleiðis verður að minnast á myndskreytingar plötuumslagsins en Ásgeir Jón Ásgeirsson á heiðurinn af þeim, það er algjörlega þess virði að fara á vefsetur listamannsins og kynna sér verk hans.

Eins og að ofan greinir var hætt við að þeir nýju áhangendur sem unnust með síðustu plötu yrðu ekki eins uppveðraðir eftir hlustun þeirrar nýju, enda hvorki tónleikar með Sinfó með tilheyrandi stemmingu né að hún innihéldi líkt eins létta og aðgengilega tónlist og sú plata. Hins vegar hefur sveitin tekið næsta skref í sinni þróunarvinnu og mig grunar að flestir fylgi glaðbeittir með.

Og í þeim rituðum orðum þegar ég legg lokahönd á þennan pistil horfi ég á hvítan veturinn út um gluggann og í kollinum á mér syngur djöfulleg rödd „það snjóar – það snjóar!“