Das Kapital (1984-85)

Das Kapital1

Das Kapital í upphafi

Das Kapital var skammlíf sveit með Bubba Morthens í fararbroddi, á þeim tíma sem hann lifði hratt.

Á þessum tíma hafði Bubbi verið í mikilli neyslu og var að brenna upp, hann hafði þá á fjögurra ára tímabili gefið út fimm sólóplötur, þrjár plötur með Utangarðsmönnum (auk eina litla) og þrjár plötur með Egó.

Þegar fréttir bárust í upphafi ársins 1984 um að hann væri á leið til Bandaríkjanna til að leika í kvikmyndum tók þjóðin þátt í gleðinni og óskaði honum alls hins besta óafvitandi um eiturlyfjaneyslu hans, í viðtölum sagðist hann einnig vera búinn að stofna nýja hljómsveit ásamt Danny Pollock og öðrum tónlistarmönnum vestra undir nafninu Das Kapital. Nafnið kemur eins og flestir sjálfsagt vita úr ranni Karls  Marx (1818-83).

Bubbi fór vestur um haf um vorið en kom til baka fáeinum vikum síðar með risastóra Visa-skuld á bakinu, en hann hafði keypt ógrynni af kókaíni með Visakortinu. Engin hljómsveit hafði hins vegar verið stofnuð.

Í júlí bárust hins vegar fréttir af því að Das Kapital væri orðin að veruleika en Bubbi hafði þá stofnað sveit undir þessu nafni hér heima. Meðlimir þeirrar sveitar auk Bubba voru Mike Pollock gítarleikari og félagi Bubba úr Utangarðsmönnum, gamla brýnið Björgvin Gíslason gítarleikari, Jakob Smári Magnússon bassaleikari og Guðmundur Gunnarsson trommuleikari en þeir tveir síðastnefndu komu úr Tappa tíkarrass. Sjálfur var Bubbi þriðji gítarleikarinn og söngvari Das Kapital. Megas var í upphafi nefndur sem einn meðlima sveitarinnar en það virðist þó aldrei hafa verið raunin, einnig var Gunnar Rafnsson hljómborðsleikari um tíma í Das Kapital.

Das Kapital2

Das Kapital

Upphaflega var líklega ætlunin að spila eingöngu á Laugahátíð um verslunarmannahelgina en síðan var ákveðið að halda samstarfinu áfram og vinna plötu. Bubbi hafði lagt til lög sem reyndar öll voru á ensku en textum var snarað yfir á íslensku hið skjótasta. Áður en sveitin fór í hljóðver hætti Björgvin gítarleikari í sveitinni en honum mun hafa ofboðið lífernið á Bubba. Tveir aðstoðarmenn voru hins vegar fengnir í upptökurnar, þeir Jens Hanson saxófónleikari og Arnþór Jónsson sellóleikari. Þess má geta að framlag Jens var það fyrsta sem heyrðist frá honum á plötu en hann átti síðar eftir að gera garðinn frægan með Sálinni hans Jóns míns. Hann átti síðan eftir að ganga til liðs við Das Kapital.

Platan var unnin í snarhasti og kom út á vegum Grammsins í nóvember, hún hlaut titilinn Lili Marlene eftir eina tökulaginu á plötunni, stríðsárasmellinum sem Marlene Dietrich hafði gert ódauðlegan.

Lili Marlene fékk yfirleitt ágætar viðtökur og seldist vel þótt gagnrýnendur blaðanna væru mishrifnir, platan fékk til að mynda varla nema skítsæmilega dóma í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum en mun betri í Helgarpóstinum, NT og DV. Platan varð þriðja söluhæsta plata ársins 1984.

Frægt var þegar Das Kapital efndi til samstöðutónleika á Lækjartorgi haustið 1984 en þá stóð yfir BSRB verkfall, verkfallsmönnum var boðið að halda ræður milli laga sveitarinnar en þegar upp var staðið hafði sveitin verið hrakin af sviðinu og verkfallsliðar tekið yfir dagskrána, Das Kapital voru þar með orðnir gestir í aukaatriði á eigin tónleikum.

Fljótlega eftir áramót eða í janúar 1985 bárust þær fregnir að Das Kapital væri farin í pásu en hún var þá hætt störfum, ástæðan var þá fyrst og fremst að Bubbi hafði viðurkennt vanda sinn og farið í meðferð. Hann átti eftir að koma aftur fram á sjónarsviðið síðar það sama ár eftir meðferðina með eina af bestu plötum sínum, Konu.

Sögu Das Kapital var þó ekki alfarið lokið því hún kom aftur saman á afmælistónleikum Bubba 6. júní 2006 sem voru teknir upp og gefnið út undir nafninu 06.06.06, þar má heyra þrjú lög með sveitinni.

Efni á plötum