
Dato Triffler
Dato Triffler var aukasjálf Jakobs Lárusar Sveinssonar tónlistarmanns (f. 1954) frá Víkingavatni í Suður-Þingeyjasýslu.
Jakob birtist nokkrum sinnum á síðum dagblaðanna árið 1980 en hann hélt þá tónleika undir nafninu Dato Triffler, hann tjáði þá blaðamanni að hann hefði byrjað að semja tónlist 1974 með litlum árangri en þegar hann fékk styrk frá guði haustið 1979 hefði tónlistin birst honum.
Planið hjá honum var þá að flytjast til Bandaríkjanna, stofna þar hljómsveit og koma trúarlegri og heimspekilegri tónlist sinni á framfæri en hann sagðist hafa það hlutverk að frelsa heiminn frá glötun með tónlist sinni. Hann hafði þá komið fram hérlendis í nokkur skipti, m.a. sem heiðursgestur á SATT-kvöldið haustið 1980.
Ekkert heyrðist hins vegar meir frá Dato Triffler fyrr en 1991 þegar lítil frétt um hann birtist í einum fréttamiðlunum. Þá hafði hann fengið happdrættisvinning og ætlaði hann að nota vinninginn til að fara til Bandaríkjanna og koma tónlist sinni á framfæri.