Drýsill (1983-86)

Drýsill

Upphafleg útgáfa Drýsils

Þungarokkssveitin Drýsill starfaði um þriggja ára skeið um miðjan níunda áratug liðinnar aldar og gaf út eina plötu.

Stofnmeðlimir Drýsils voru þeir Eiríkur Hauksson söngvari og gítarleikari, Sigurður Reynisson trommuleikari, Jón Ólafsson bassaleikari og Einar Jónsson gítarleikari en sveitin var stofnuð um haustið 1983. Reyndar hafði Eiríkur, sem hafði frumkvæðið að stofnun sveitarinnar, fyrst prófað aðra trommu- og bassaleikara áður en þeir Sigurður og Jón komu til sögunnar.

Drýsill hlaut strax fádæma góðar viðtökur fyrir frammistöðu sína á tónleikum og var í raun partur af heilmikilli þungarokksvakningu en birtingarmynd hennar fólst meðal annars í stofnun öflugs rokkklúbbs sem starfaði á höfuðborgarsvæðinu, og fleiri sveitir fylgdu í kjölfarið.

Með slíkan meðbyr kom ekki annað til greina en að ráðast í plötugerð og um haustið 1984 fór sveitin í Hljóðrita í Hafnarfirði og hóf upptökur en Sigurður Bjóla var upptökumaður. Þær upptökur gengu þó ekki stóráfallalaust og töfðust meðal annars vegna beinbrota og veikinda.

Fljótlega eftir að upptökum lauk í upphafi nýs árs (1985) bættist fimmti meðlimurinn við, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og þá gat Eiríkur einbeitt sér að söngnum á tónleikasviðinu.

Drýsill2

Drýsill

Þegar til stóð að finna útgefanda að plötunni voru þeir tregir að gefa hana út, ástæðan var tegund tónlistarinnar en þungarokk hafði þá ekki beinlínis verið líkleg til sölu undanfarin ár, en aðalástæðan var þó að Drýsill kaus að flytja sitt efni á ensku enda fannst þeim passa þungarokkinu illa að syngja það á íslensku. Að endingu var ákveðið að sveitin gæfi plötuna út sjálfir og svo varð. Eiríkur hannaði sjálfur umslag plötunnar sem fékk hlaut titilinn Welcome to the show.

Þegar platan kom út um vorið 1985 fékk hún mjög góðar viðtökur og upplag hennar seldist upp. Gagnrýnendur blaðanna tóku henni einnig vel, platan fékk til að mynda mjög góða dóma í Morgunblaðinu (sem birti reyndar tvo dóma um plötuna), Þjóðviljanum og Helgarpóstinum, og ágæta einnig í DV og unglingatímaritinu Smelli.

Þrátt fyrir að lagið Left right nyti mikilla vinsælda sumarið 1985 og skoraði nokkuð hátt á vinsældarlista Rásar 2 fékk platan fremur litla spilun á útvarpsstöðinni, mitt í miðju vinsældaflæði Duranista og Whammara. Sveitin lék þó víða um sumarið og fór mikinn á sveitaböllum og útihátíðum enda dugði ekki að leika eingöngu á tónleikum þegar greiða þurfti upp kostnað af útgáfu heillrar breiðskífu.

Drýsill 1985

Drýsill á sviði

Til stóð að gefa út smáskífu um haustið en af því varð ekki af einhverjum ástæðum.

Í september 1985 tók Jón bassaleikari sér frí frá spilamennsku og fyllti Baldvin H. Sigurðsson úr Baraflokkum skarð hans, þá höfðu þeir Drýslar eins og fyrr segir spilað mikið á sveitaböllum og á þeim þurfti að bæta við léttmeti sem ekki voru allir meðlimir sveitarinnar jafn áhugasamir um. Það kom því einnig fyrir að þeir komu fram aðeins þrír, Eiríkur, Sigurgeir og Einar, og léku rólegan blús en þó undir Drýsilsnafninu.

Það var því komin nokkur þreyta í sveitina og að því kom að þeir ákváðu að hætta störfum þar sem upphaflegar forsendur, að spila þungarokk fyrir sjálfa sig, voru brostnar og þeir fallnir í sveitaballagryfjuna. Drýsill var því raunverulega hætt um áramótin 1985-86 en héldu sína lokatónleika í mars 1986.

Þeir félagarnir fóru allir í sína hverja áttina en óneitanlega var Eiríkur þeirra mest áberandi næstu árin, þetta sama ár (1985) söng hann á Borgarbrags-plötu Gunnars Þórðarsonar lög eins og Gaggó Vest og Gull og fór einnig sem hluti af Icy hópnum til Bergen í Noregi sem fulltrúi Íslands í fyrstu Eurovision keppninni okkar Íslendinga vorið 1986. Þar átti hann síðan eftir að búa um árabil

Drýsill kom saman aftur og lék lítillega árið 2005 en eftir stendur platan Welcome to the show sem ágætis minnismerki um þessa þungarokkssveit.

Efni á plötum