Drulla [1] (1991)

Drulla [1]

Drulla

Pönksveitinni Drullu var aldrei hugað langt líf enda hliðarspor og einkaflipp nokkurra tónlistarmanna úr rokk- og pönkgeiranum.

Meðlimir Drullu voru Ham-liðarnir Óttarr Proppé og Björn Blöndal, Ari Eldon og Örn Arnarson. Óttarr var söngvari sveitarinnar og gekk þarna undir nafninu Olli orgari en ekki er ljóst á hvaða hljóðfæri hinir þrír skiptu sér, þeir Alí Maomao bassaleikari, Jesper Jammí gítarleikari og Bóbó bumba trommuleikari eins og þeir kölluðu sig.

Sveitin kom nokkrum sinnum fram þetta ár en virðist síðan hafa hætt störfum, hún kom þó saman aftur 1997.

Vitað er að til stæði að Drulla gæfi fyrstu tónleika sveitarinnar út á snældu í mjög takmörkuðu upplagi en ekki er þó ljóst hvort af því varð, þeir höfðu a.m.k. stofnað eigið útgáfufyrirtæki fyrir verkefnið en það nefndist H.Ó.R.

Efni með sveitinni kom út á tveimur safnsnældum 1991, Snarl III og Gallerí Krunk.