Jóhann Jósefsson frá Ormarslóni (1911-2004)

Jóhann Jósefsson

Jóhann Jósefsson

Jóhann Jósefsson harmonikkuleikari frá Ormarslóni var með þekktustu harmonikkuleikurum sinnar samtíðar og varð fyrstur slíkra til að leika einleik á plötu hérlendis.

Jóhann (Óskar) Jósefsson fæddist 1911 á Ormarslóni í Þistilfirði, og bjó þar reyndar bróðurpartinn úr ævi sinni. Hann ólst upp við harmonikkuleik en móðir hans lék gjarnan á böllum í heimabyggð og naut Jóhann góðs af því tónlistaruppeldi.

Jóhann lærði eitthvað á orgel hjá frænda sínum á yngri árum en eignaðist sjálfur harmonikku fjórtán ára gamall. Fyrst um sinn spilaði hann mestmegnis eftir eyranu en þegar norskur sjómaður sem lék á balli í sveitinni leiðbeindi honum og lánaði honum kennsluefni, varð ekki aftur snúið. Fimmtán ára var hann sjálfur farinn að leika á böllum og lærði áfram á hljóðfærið, bæði undir leiðsögn Norðmannsins (sem ekki hefur verið nafngreindur) sem kom reglulega til hafnar á Melrakkasléttunni, en einnig pantaði Jóhann kennsluefni frá Noregi og nam fræðin á þann hátt. Fljótlega fór hann sjálfur að semja á hljóðfærið.

Jóhann lék víða um land á harmonikkuna og varð landsþekktur sem harmonikkuleikari, hann lék einnig ásamt yngri bróður sínum, Þorsteini Pétri, en þeir kölluðu sig Ormarslónsbræður. Þegar Jóhann var á ferð um sunnanvert landið árið 1933 lék hann í útvarpinu og þá bauðst honum fyrir hálfgerða tilviljun að leika inn á plötu, þá voru hér á landi á ferð upptökumenn frá Columbia útgáfufyrirtækinu til að taka upp efni fyrir Fálkann en það höfðu þeir einnig gert fyrir Alþingishátíðina 1930.

Jóhann lék þá tvö frumsamin lög, Regndropinn og Við Íshafið, en upptakan og útgáfan markar viss þáttaskil í íslenskri tónlistarsögu, þetta var í fyrsta skipti sem danslög voru leikin á plötu á Íslandi, ennfremur í fyrsta skipti sem einleikur á harmonikku heyrðist á plötu og líklega einnig í fyrsta sinn sem höfundur lék eigin lög á plötu hérlendis. Þann sama dag lék hljómsveit Poul Bernburg (P.O. einnig danslög inn á plötu svo sú sveit deilir fyrst nefnda atriðinu með Jóhanni.

Jóhannes á Ormarslóni

Jóhann frá Ormarslóni

Þrátt fyrir að Jóhann væri fyrst og fremst bóndi að aðalstarfi og harmonikkuleikari í frístundum, kenndi hann við tónlistarskólana á Raufarhöfn og Þórshöfn um árabil, auk þess að taka fólk í einkakennslu heima hjá sér á Ormarslóni. Hann kenndi til að mynda Karli Jónatanssyni, Ágústi Péturssyni og Jóni Hrólfssyni en þeir urðu allir þekktir lagasmiðir og hljóðfæraleikarar.

1976 kom út á platan Harmonikan hljómar en á þeirri plötu léku þeir Jóhann, Garðar Olgeirsson og Bjarki Árnason á harmonikku, fimm fyrstu lögin af ellefu talsins voru flutt af Jóhanni – öll frumsamin. Platan kom út á vegum Akkord, plötuútgáfu Karls Jónatanssonar fyrrum nemanda Jóhanns en hann hafði einmitt verið með harmonikkuþætti í Ríkisútvarpinu á sjötta áratugnum undir þessum sama titli.

Jóhann var þrátt fyrir að búa við einangrun norður við heimskautsbaug vel tækjum búinn og tók hann upp heilmikið efni, í blaðagrein var talað um að til stæði að fjölfalda slíkar upptökur til útgáfu á snældum en ekki liggur fyrir hvort af þeirri útgáfu varð, hins vegar sendi Jóhann frá sér geislaplötu árið 1998 sem hafði að geyma slíkt efni. Upplýsingar um þá útgáfu eru hins vegar afar takmarkaðar en leiða má líkum að því að upplagið hafi verið lítið.

Jóhann lék á harmonikku langt fram eftir aldri og eftir honum var haft að hann myndi aldrei fara á „ellimannahæli“ þar sem honum yrði bannað að leika á nikkuna. Hann bjó þó síðustu mánuði lífs síns á dvaldarheimili aldraðra á Raufarhöfn þar sem hann lést sumarið 2004 á nítugasta og þriðja aldursári.

Efni á plötum