Junior kvintett (1957-60)

Junior kvartett 1960

Junior kvartett 1960

Junior (Júníor) kvintett starfaði um þriggja ára skeið fyrir og um 1960.

Junior (sem ýmist var kvintett eða kvartett) var stofnuð sumarið 1957 en þá var hún skipuð fimm meðlimum, það voru Þorkell S. Árnason gítarleikari, Jón Óttar Ragnarsson píanóleikari (síðar sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, Herbalife-kóngur o.fl.), Fritz Hendrik Berndsen gítarleikari (Binni í Blómabúð Binna) og Pétur S. Gunnarsson trommuleikari, sem var „hljómsveitarstjórinn“, auk þeirra gæti saxófónleikarinn og söngvarinn Donald Rader hafa verið í sveitinni í upphafi. Ingi Lárusson mun einnig hafa sungið með þeim fyrst um sinn en söngvarar voru ekki hluti af hljómsveitum á þessum árum.

Meðlimir Junior sem voru ungir að árum, þrettán og fjórtán ára gamlir í upphafi, starfræktu sveitina ekki samfleytt þann tíma sem hún starfaði og tæplega tvö ár liðu þar til hún birtist aftur sumarið 1959 lítillega og svo aftur sumarið 1960. Þá var sveitin kvartett skipaður Pétri, Jóni Óttari, Fritz og Þorkeli, söngvari með sveitinni var þá Þór Nielsen. Junior var aldrei með bassaleikara.

Junior mun hafa hætt störfum um haustið 1960.