![Pass [4]](https://hraunbaer.files.wordpress.com/2016/03/pass-4.jpg?w=300&h=211)
Pass frá Hveragerði
Hljómsveitin Pass frá Hveragerði hefur skemmt heimafólki og nærsveitungum um árabil og meira að segja gefið út tónlist sína. Tíðar mannabreytingar hafa þó einkennt sveitina eins og oft er með langlífar hljómsveitir.
Pass var stofnuð 1992 í blómabænum Hveragerði en stofnliðar sveitarinnar voru Kristinn Grétar Harðarson trommuleikari og söngvari, Óttar Hrafn Óttarsson söngvari, Sölvi Ragnarsson bassaleikari og Hörður Friðþjófsson gítarleikari. Óttar söngvari hafði unnið sér til frægðar að verða Íslandsmeistari í karaoke.
Þegar Þórir Gunnarsson bassaleikari og Heimir Eyvindarson hljómborðsleikari gengu til liðs við Pass 1993 var nafni sveitarinnar um tíma breytt í Pass frá Marz, en Sölvi færði sig þá yfir á gítar, þá var Hörður gítarleikari líkast til hættur í Pass.
1995 hættu þeir Þórir og Heimir í sveitinni og stofnuðu Á móti sól en Pass frá Marz lagðist í dvala í fáeina mánuði áður en hún var endurreist undir gamla nafninu. Þá bættust í hópinn Einar Már Gunnarsson söngvari og gítarleikari, Gestur Áskelsson hljómborðs- og saxófónleikari og Sigurður Egilsson bassaleikari en auk þeirra voru þá Kristinn og Óttar enn í bandinu. Sölvi gítarleikari hafði þá hætt í sveitinni.
Þótt Pass hefði verið endurreist var hún ekki ýkja virk til að byrja með en þegar sveitin var fastráðin til að leika á Hótel Örk í Hveragerði var ekki aftur snúið og lék sveitin þar líklega til ársins 2004, þá fór hún yfir í næsta byggðalag og varð húshljómsveit á Hótel Selfossi.
Sumarið 1996 kom út af því er virðist vera tveggja laga snælda með hljómsveitinni sem hafði að geyma lögin Hveragerði: blómstrandi bær / Nóttin en fyrrnefnda lagið er tengt bæjarhátíðinni blómstrandi dagar.
Óttar hafði hætt í sveitinni haustið 1996 og tók þá Einar Már gítarleikari við söngnum en þegar hann hætti 2002 eftir sex ára veru í Pass tók Arnar Freyr Gunnarsson fyrrum látúnsbarki við söng- og gítarleikarahlutverkinu.
Þegar Óttar hætti var Kristinn trymbill einn eftir af upprunalegu útgáfu sveitarinnar.
Þremur árum eftir að snældan kom út sendi Pass frá sér geislaplötuna Hamar en hún var gefin út til styrktar körfuknattleiksdeild Hamars í Hveragerði. Platan hefur að geyma fimm lög sem voru tekin upp í hljóðveri FÍH og Stúdíó Glóru.
Ingvar Birnir Grétarsson mun hafa tekið við söngnum af Arnari 2009 og 2012 var sveitin fjögurra manna, skipuð Kristni, Gesti, Sigurði og Ingvari en 2015 var Jón Kjartan Ingólfssson bassaleikari (Stuðkompaníið o.fl.) kominn í sveitina í stað Sigurðar og Arnar Freyr snúinn aftur í stað Ingvars. Og þannig er sveitin enn skipuð eftir því sem best verður að komist, kvartett þeirra Jóns Kjartans, Arnars Freys, Gests og Kristins.
Ekki er þó ólíklegt að enn fleiri hafi komið við sögu Pass frá Hveragerði.