Neistar [3] (1973-2011)

Neistar - Karl Jónatansson

Neistar með Karl Jónatansson í broddi fylkingar

Þekktust þeirra hljómsveita sem gengið hafa undir nafninu Neistar er án efa sú sveit sem Karl Jónatansson harmonikkuleikari starfrækti í áratugi.

Neistar sérhæfði sig alla tíð í gömlu dönsunum og harmonikkutónlist en fyrstu heimildir um hana er að finna frá vorinu 1973 en þá var hún fjögurra manna. Engar upplýsingar er að finna um meðlimi þeirrar útgáfu sveitarinnar utan Karls.

Hljómsveitin starfaði að öllum líkindum með hléum á fyrstu starfsárum hennar en á níunda og tíunda áratugnum var saga hennar samfelldari. Eitthvað var mismunandi hverjir skipuðu hana hverju sinni en rauði þráðurinn var auðvitað forsprakkinn Karl Jónatansson sem lék bæði á harmonikku og hljómborð, aðrir sem komu við sögu sveitarinnar um lengri og skemmri tíma voru Edwin Kaaber gítarleikari, Pétur Urbancic bassaleikari, Ingi Karlsson (Jónatanssonar) trommuleikari, Sveinn Rúnar Björnsson harmonikkuleikari, Ómar Axelsson bassaleikari, Trausti Thorberg Óskarsson gítarleikari, Karl Adolfsson klarinettu- og harmonikkuleikari, Hekla Eiríksdóttir harmonikkuleikari og Sigurður Alfonsson harmonikkuleikari, eflaust hafa þó enn fleiri haft viðkomu í Neistum.

Ýmsir söngvarar sungu með Neistum í gegnum tíðina, Hjördís Geirs, Mjöll Hólm og Kristbjörg Löve mest en einnig Hjálmfríður Þöll Friðriksdóttir, Andrea Gylfadóttir og Ragnar Bjarnason, e.t.v. fleiri.

Sveitin starfaði stopulla eftir aldamótin 2000 enda var Karl Jónatansson þá kominn á efri ár og erfiðara fyrir hann að standa á sviði kvöld eftir kvöld, Neistar komu saman í síðasta skipti 2011 og var þá skipuð Karli, Inga syni hans, Sigurði Alfossyni, Heklu Eiríksdóttur, Edwin Kaaber og Pétri Urbancic en þá var Karl orðinn áttatíu og átta ára gamall. Hann lést 2016.

Sem fyrr segir voru Neistar hljómsveit sem sérhæfði sig í gömlu dönsunum þar sem harmonikkan var aðal hljóðfærið, heimavöllur sveitarinnar voru dansstaðir eins og Danshúsið Glæsibæ og Ásbyrgi, sveitin var ennfremur fastagestur í 17. júní dagskrá Reykjavíkur-borgar í miðborginni og gegndi lykilhlutverki á hvers kyns harmonikkuhátíðum. Þegar safnplötur voru gefnar út í tengslum við þær samkomur komu Neistar oft við sögu, í þessu samhengi má nefna plöturnar The International Reykjavik accordion festival 2000 og Harmonikuhátíð Reykjavíkur 2003.

Þá komu Neistar við sögu tveggja platna Karls, annars vegar sólóplötunni Lillý sem kom út 1997, og hins vegar á plötunni Neistaflug sem gefin var út undir nafni Karls en var í raun útgáfa hljómsveitarinnar. Neistaflug kom fyrst út á snældu 1991 en var endurútgefin á geislaplötu haustið 1996.

Efni á plötum