Box [1] (1981-82)

Box

Keflvíska hljómsveitin Box starfaði í um tvö ár og sendi á þeim tíma frá sér tvær plötur, heimatökin voru hæg því einn meðlima sveitarinnar var Baldur Þórir Guðmundsson sem hafði greiðan aðgang að hljóðveri Geimsteins sem var í eigu föður hans, Rúnars Júlíussonar. Fjölskyldufyrirtækið Geimsteinn gaf plöturnar tvær út en reyndar var aðeins fyrri platan hljóðrituð í Geimsteini.

Box var stofnuð í júní 1981 upp úr hljómsveitinni Kjarnorkublúsurunum. Auk Baldurs sem lék á hljómborð í sveitinni voru þeir Kristján E. Gíslason gítarleikari, Óskar Þór Nikulásson gítarleikari, Eðvarð Vilhjálmsson trommuleikari og Sigurður Sævarsson bassaleikari. Allir komu þeir félagarnir að söngnum.

Tónlist Box mátt í byrjun skilgreina sem eins konar nýbylgju en sveitin vakti nokkra athygli hvar sem hún kom fram,  það var mestmegnis á heimaslóðum í Keflavík og svo á höfuðborgarsvæðinu.

Box hljóðritaði fimm laga plötu strax um sumarið en hún kom út um haustið og var samnefnd sveitinni. Platan var tólf tomma og 45 snúninga, tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði á tveimur dögum af Jónasi R. Jónssyni. Hún hlaut ágæta dóma í Þjóðviljanum og DV og þokklega í Helgarpóstinum, Morgunblaðinu, Tímanum og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Um svipað leyti og platan kom út tók Box þátt í uppfærslu Leikfélags Keflavíkur á leikriti um Rauðhettu og annaðist tónlistarflutning í leikritinu. Þá er hún einnig sögð hafa verið meðal sveita sem teknar voru upp fyrir kvikmyndina Rokk í Reykjavík en af einhverjum ástæðum hefðu upptökurnar týnst.

Tríóið Box

Einhver ágreingur innan sveitarinnar varð til þess að það fækkaði í henni, fyrst hvarf Eðvarð trommuleikari á brott um haustið og síðan Kristján gítarleikari. Eftir það var Box tríó og breyttust áherslurnar í tónlistinni í framhaldi af því, meiri áhersla var lögð á hljómborð og trommuheila og mætti skilgreina tónlistina fremur undir nýrómantík en nýbylgju, ekki ósvipað þróunarferli annarra slíkra sveita.

Sveitin sat ekki auðum höndum og nákvæmlega ári eftir að hún var formlega stofnuð, þann 17. júní 1982, leit þrettán laga breiðskífa dagsins ljós undir titlinum Skuggahliðin, sú plata var hljóðrituð í upptökuheimili Geimsteins og sá Sigurður nú eingöngu um sönghliðina.

Skuggahliðin fékk afar misjafna dóma, t.a.m. ágæta í Tímanum og Þjóðviljanum, þokkalega í Morgunblaðinu, Vikunni og Poppbók Jens Guðmundssonar en slaka í DV og Helgarpóstinum.

Box starfaði ekki lengi eftir útgáfu plötunnar en hún virðist hafa hætt um haustið 1982. Þeir störfuðu þó saman áfram, fyrst undir nafninu Coda og síðar C.Tv.

Lög með sveitinni rötuðu síðar inn á safnplöturnar Sextán ára (1992) og 25 ára (2001).

Efni á plötum