Boy’s brigade (1983-84)

Boy’s brigade

Hljómsveitin Boy‘s brigade var eins konar undanfari Rikshaw sem gerði garðinn frægan um miðjan níunda áratuginn.

Sveitin var stofnuð 1983 en hlaut líklega ekki nafn fyrr en vorið 1984 þegar hún birtist fyrst opinberlega á Safari og lék þar frumsamda tónlist kennda við nýrómantík.

Skipan sveitarinnar var nokkuð sérstök en hún var þá án bassaleikara en með þrjá hljómborðsleikara, meðlimir hennar voru Magnús Stefánsson trommuleikari (Utangarðsmenn, Egó o.fl.) sem þá var þekktastur þeirra félaga enda var þá í fjölmiðlum talað um nýju sveitina hans Magga, Richard Scobie söngvari og hljómborðsleikari, Gunnar Rafnsson hljómborðsleikari, Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari og Sigurður Gröndal gítarleikari. Tveir þeir síðast nefndu höfðu verið í hljómsveitinni Árbliki. Á einhverjum tímapunkti mun Þórður Bogason einnig hafa verið í Boy‘s brigade.

Sveitin fékk ágætar viðtökur og var líkt við Duran Duran sem Magnús var ekkert sérlega jákvæður fyrir í blaðaviðtali. Fljótlega auglýstu þeir eftir bassaleikara og stuttu eftir það einnig eftir gítarleikara, en þá voru Ingólfur og Sigurður báðir hættir í sveitinni. Svo virðist sem þá hafi Boy‘s brigade lognast út af smám saman, Ragnar Óskarsson bassaleikari lék með sveitinni í skamman tíma en svo var það búið.

Fáeinum mánuðum síðar birtust þeir félagar, Ingólfur og Sigurður í nýrri sveit og höfðu með sér söngvarann Richard Scobie en með þeirri sveit slógu þeir gegn undir nafninu Rikshaw.