Axlabandið [1] (1967-68)

Axlabandið

Axlabandið

Reykvíska unglingasveitin Axlabandið sem stofnuð var haustið 1967 var ein af mörgum sveitum sem áttu eftir að bera þetta nafn. Meðlimir hennar voru Finnbogi Kristinsson bassaleikari, Már Elíson trommuleikari, Magnús Halldórsson orgelleikari, Gunnar Jónsson söngvari og Guðmundur V. Óskarsson gítarleikari.

Upphaf sveitarinnar má rekja til Guðmundar og Finnboga en síðan bættust þeir Magnús og Gunnar við. Þegar enn vantaði trommuleikara brá sveitin á það ráð að auglýsa eftir einum slíkum í blöðum. Það sem aðallega vakti þá athygli var nafn sveitarinnar, og það svo að blaðamaður á Alþýðublaðinu sá ástæðu til að rita grein í blaðið þar sem agnúast var út í nöfn á hljómsveitum. Í kjölfarið sá blaðamaður Lesbókar Morgunblaðsins ástæðu til að grínast með nafn Axlabandsins í grein.

Axlabandið starfaði fram á vorið 1968 en þá auglýsti sveitin aftur, í þetta skiptið eftir gítar- eða hljómborðsleikara. Sú auglýsing hefur að líkindum ekki skilað neinu því ekki heyrðist neitt meira frá þessari merku sveit. Flestir meðlimir hennar birtust aftur á móti síðar um sumarið í nýrri sveit, Mixtúrunni.