Arfi (1969-70)

Arfi

Arfi var hljómsveit sem stofnuð var 1969 og keppti þá um verslunarmannahelgina í hljómsveitakeppni í Húsafelli. Meðlimir sveitarinnar voru þeir Kári Jónsson gítarleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari (Stuðmenn o.fl.), Gunnar Jónsson söngvari, Ólafur Sigurðsson bassaleikari (bróðir Þuríðar söngkonu og Gunnþórs bassaleikara í Q4U) og Magnús Halldórsson orgelleikari.

Það sama haust var Ólafur bassaleikari rekinn og Tómas M. Tómasson (síðar Stuðmaður) ráðinn í hans stað, Ólafur sem taldi sig eiga rétt á Arfa-nafninu fékk að halda því og var nafni sveitarinnar breytt fljótlega í Mods en hluti sveitarinnar hafði áður verið í sveit með því nafni.

Svo virðist sem Ólafur hafi endurvakið sveitina ári síðar, a.m.k. keppti sveit með því nafni í Húsafelli á nýjan leik og lenti hún í öðru sæti. Engar upplýsingar er að finna um meðlimaskipan þess Arfa.