Mods [2] (1969-70)

Mods[2]

Mods

Hljómsveitin Mods (hin síðari) var stofnuð upp úr annarri hljómsveit, Arfa, haustið 1969. Sú sveit hafði upphaflega verið skipuð þeim Kára Jónssyni gítarleikara (úr Mods hinni fyrri), Gunnari Jónssyni söngvara, Ólafi Sigurðssyni bassaleikara, Ásgeiri Óskarssyni trommuleikara og Magnúsi Halldórssyni orgelleikara.

Þegar Ólafur var rekinn úr sveitinni taldi hann sig eiga réttinn á Arfa-nafninu og því breyttu hinir meðlimir um nafn hennar og kölluðu sig Mods. Hún var þó nokkuð rokkaðri en hin fyrri Mods, sem var bítlasveit. Tómas M. Tómasson (frændi Ásgeirs) kom í stað Ólafs bassaleikara.

Þannig skipuð starfaði sveitin eitthvað áfram eða þar til Ásgeir trommuleikara fluttist til Svíþjóðar til að vinna í skipasmíðastöð. Sveinn Larsson kom í stað Ásgeirs en hann hafði einmitt einnig verið í hinni fyrri Mods.

Mods starfaði fram á sumar 1970 en síðustu vikurnar söng Janis Carol með sveitinni áður en hún gekk til liðs við Tatara. Þá hafði Mods fengið vilyrði um útgáfu tveggja laga plötu hjá SG-hljómplötum en það féll eðlilega um sjálft sig þegar sveitin hætti.