Mogo homo (1981-84)

Mogo homo21

Dúettinn Mogo homo

Eitís bandið Mogo homo var lengst af dúett félaganna Óðins Guðbrandssonar og Óskars Þórissonar en þeir höfðu báðir áður verið í Taugadeildinni í pönksenunni sem þá stóð sem hæst.

Mogo homo var stofnuð í nóvember 1981 og má með réttu kallast fyrsta tölvupoppsveit Íslands (ásamt Sonus Futurae), stofnendur hennar, Óskar Þórisson söngvari og hljómborðsleikari og Óðinn Guðbrandsson bassaleikari nutu framan af mest aðstoðar segulbanda og trommuheila þegar sveitin lék opinberlega, þeir munu þó einhverju sinni hafa komið fram með trommuleikara áður en sveitin lagðist í nokkurra mánaða dvala á meðan Óskar dvaldi í Japan vorið og sumarið 1982.

Á meðan Mogo homo var í pásu var kvikmyndin Rokk í Reykjavík frumsýnd en þar var tvíeykið einn af fulltrúum íslensks tónlistarlífs með lagið Bereft þótt ekki kæmi sveitin fram í mynd, hún hélt áfram starfseminni um sumarið og um haust tók Mogo homo þátt í fyrstu Músíktilraununum án þess þó að komast í úrslit.

Mogo homo41

Mogo homo

Eftir áramótin 1982-83 auglýsti sveitin eftir hljómborðsleikara í smáauglýsingum DV og um vorið hafði fjölgað svo um munaði í henni þegar gítarleikarinn Tómas Bergþórsson og söngkonurnar Sunna María Magnúsdóttir og Steinunn Halldórsdóttir höfðu slegist í hópinn, enginn var þó hljómborðsleikarinn. Í millitíðinni hafði aukinheldur (ónafngreind) systir Óskars, sungið með sveitinni en Sunna María tekið við af henni. Samhliða þessari fjölgun hafði tónlistin þróast yfir í vera léttpopp en líklega varð það til þess að Óðinn bassaleikari, annar stofnandi upphaflega dúettsins hætti í sveitinni um sumarið 1983 og gekk til liðs við Q4U. Aftur var auglýst og Einar Ingi [?] tók við bassanum og enn var auglýst í DV um haustið en í þetta skiptið eftir trommuleikara, Jóhann Richard (Jói Motorhead) sem áður hafði barið húðir með Egó bættist þannig í hópinn og líklegast varð það síðasta mannabreytingin áður en Mogo homo hætti störfum. Eitthvað efni hafði þó verið tekið upp í millitíðinni og rataði lagið Do the dancing á safnplötuna Tvær í takt sem út kom síðla vetrar 1984.

Lagið naut nokkurra vinsælda og rataði á vinsældarlista Rásar 2 sem þá var nýbyrjaður. Poppskríbentar Morgunblaðsins og DV voru þó ekki ýkja hrifnir af laginu í dómum sínum um plötuna. Mogo homo var þá hætt nokkru fyrr sem fyrr segir og lítt hefur til þeirra Óðins og Óskars spurst í íslensku tónlistarlífi, þeim síðarnefnda skaut þó upp í síðpönksveitinni Þetta er bara kraftaverk.