Grétar á gröfunni (1988-92)

Grétar á gröfunni

Grétar á gröfunni

Flateyska hljómsveitin Grétar á gröfunni hélt uppi stuðinu á heimaslóðum í kringum 1990 en sveitin var stofnuð nokkuð fyrr, hugsanlega 1988. Hún starfaði líklega til 1992 hið minnsta en var endurvakin 2002. Meðlimir hennar 1990 voru Einar Hafberg, Trausti Bjarnason, Jón Svanberg Hjartarson, Steinþór Kristjánsson og Ragnar Gunnarsson. Ekki liggur fyrir hverjir spiluðu á hvaða hljóðfæri, né hvort fleiri hefðu komið við sögu sveitarinnar.

Nafn sveitarinnar er rakið til gröfumanns á Flateyri, Grétars Arnbergssonar, sem iðulega var kallaður Grétar á gröfunni til aðgreiningar frá öðrum Grétari á staðnum, Grétari skipstjóra.

Grétar á gröfunni komst í fréttirnar sumarið 1990 þegar sveitin ætlaði að halda ball á Flateyri sem ekki fékkst leyfi fyrir. Var þá slegið upp balli í kassageymslu fiskvinnslunnar á staðnum undir því yfirskyni að væri verið að halda stofnfund aðdáendaklúbbs sveitarinnar (og voru félagsgjöldin kr. 1200), sveitin hefði við það tækifæri tekið lagið, og þá hafi fólk byrjað að dansa. Á annað hundrað manns voru á „stofnfundinum“. Yfirlögregluþjónninn á Ísafirði hafði ætlað að leggja fram kæru vegna málsins en ekki er ljóst hvort af því varð.