
Hanna Valdís
Hanna Valdís Guðmundsdóttir (f. 1962) varð ein fyrsta íslenska barnastjarnan en segja má að Svavar Gests hafi skotið henni upp á stjörnuhimininn með tveimur plötum sem fyrirtæki hans SG-hljómplötur gaf út.
Annars vegar var um að ræða litla fjögurra laga plötu sem hafði m.a. að geyma smellinn um Línu langsokk, en öll lög plötunnar voru reyndar tengd sögum Astridar Lindgren og textarnir þýddir af Kristjáni frá Djúpalæk.
Magnús Pétursson stjórnaði hljómsveit sem lék undir á plötunni. Platan seldist í um tíu þúsund eintökum en það var einsdæmi hérlendis. Hins vegar kom út tólf laga breiðskífu við ljóð Kristjáns en þar komu lögin úr ýmsum áttum, Ólafur Gaukur sem annaðist hljómsveitarstjórn á plötunni átti fimm þeirra. Mörg laganna náðu miklum vinsældum og telst platan til sígildra barnaplatna á Íslandi.
Hanna Valdís söng einnig einsöng á litla plötu með Sólskinskórnum sem naut einnig vinsælda um þetta leyti og var því ekki að neita að hún var áberandi í íslensku tónlistarlífi. Til stóð að hún myndi syngja inn á aðra breiðskífu en þá fannst henni komið nóg og dró sig í hlé frá sviðsljósinu. Hanna Valdís giftist síðan annarri barnastjörnu, Einari Ólafssyni löngu síðar.