Leiktríóið [1] (1960)

engin mynd tiltækLeiktríóið  var stofnað til þess einungis að leika í Þjóðleikhúskjallaranum og starfaði um nokkurra mánaða skeið árið 1960.
Tríóið var stofnað í byrjun árs og hafði að geyma Ólaf Gauk Þórhallsson gítarleikara, Hrafn Pálsson píanóleikara og Kristinn Vilhelmsson bassaleikara en sá síðast nefndi var titlaður hljómsveitarstjóri. Hann hafði þá áður stýrt Neo-tríóinu.

Svanhildur Jakobsdóttir söngkona (þá stundum kölluð Svana) var ráðin til starfa en hún hafði þá verið að syngja í leiksýningunni Rjúkandi ráð, Leiktríóið varð hins vegar frumraun hennar með hljómsveit en þau Ólafur áttu eftir að rugla saman reitum, gifta sig og starfa aukinheldur saman næstu áratugina.

Sveitin spilaði eins og áður segir, í Leikhúskjallaranum og þannig skipuð lék hún fram á mitt sumar, þá hættu þau Ólafur Gaukur og Svanhildur og héldu á önnur mið en í stað Ólafs kom Ólafur Stephensen, Reynir Sigurðsson gæti reyndar einnig hafa komið við sögu í millitíðinni.

Kúbversk söngkona, Numedia söng með tríóinu á haustmánuðum og gerði lukku en þegar hún hvarf af landi brott hætti sveitin, síðla hausts.