Svanhildur Jakobsdóttir (1940-)

Svanhildur Jakobsdóttir

Söngkonuna Svanhildi Jakobsdóttur ættu allflestir að þekkja en hún söng fjölmörg vinsæl lög á söngferli sínum, fyrst sem söngkona Sextetts Ólafs Gauks og síðar gaf hún út vinsælar barna- og jólaplötur, síðustu áratugina hefur hún hins vegar starfað við þáttagerð í útvarpi og nýtur þar einnig vinsælda.

Svanhildur Jakobsdóttir fæddist haustið 1940 í Reykjavík og ólst þar að mestu upp, utan þess að hún bjó sem barn í þrjú ár í Borgarnesi en þangað flutti móðir hennar eftir að Jakob faðir Svanhildar fórst með Goðafossi sem skotinn var niður af þýskum kafbáti haustið 1944, hann var tónlistarmaður og lék m.a. með hljómsveit Carl Billich á sínum tíma.

Svanhildur mun eitthvað hafa lært á píanó á yngri árum en að öðru leyti var fátt framan af sem benti til að hún myndi síðar fást við tónlist. Hún hóf að starfa sem flugfreyja átján ára gömul og um tvítugt var hún einnig meðal keppenda í Fegurðarsamkeppni Íslands sem fram fór í Tívolíinu í Vatnsmýrinni og fór reyndar sem fulltrúi Íslands í Miss Universe keppnina í Bandaríkjunum auk þess sem hún starfaði eitthvað við fyrirsætustörf í kjölfarið. Þess má geta að söngkonan Sigrún Ragnarsdóttir var einnig meðal keppenda í keppninni í Vatnsmýrinni.

Haustið 1959 hafði Svanhildur leikið í revíunni Rjúkandi ráð eftir þá bræður Jónas og Jón Múla Árnasyni og þar mun hún líklega hafa sungið í fyrsta sinn á sviði. Hvort sem það var frammistaðan þar eða eitthvað annað þá fengu þeir Kristinn Vilhelmsson, Hrafn Pálsson og Ólafur Gaukur Þórhallsson í Leiktríóinu Svanhildi til að syngja með sveitinni í Þjóðleikhúskjallaranum eftir áramótin og fram á vorið 1960 og það var einmitt þá um sumarið sem hún keppti í fegurðarsamkeppninni. Svanhildur söng í fáein skipti um veturinn 1960-61 með hljómsveitum Svavars Gests og Einars Loga Einarssonar en sinnti þá í framhaldinu fegurðardrottningarskyldum sínum og fyrirsætustörfum svo að söngframi var ekki beinlínis á dagskránni og í blaðaviðtali kvaðst hún ekki gera ráð fyrir að syngja meir.

Örlögin gripu hins vegar í taumana, þau Ólafur Gaukur fyrrum samstarfsmaður Svanhildar í Leiktríóinu felldu hugi saman, giftu sig og eignuðust sitt fyrra barn sumarið 1963. Vorið 1964 hafði Gaukurinn sem þarna var löngu orðinn landsþekktur gítarleikari, laga- og textahöfundur, sett á stofn hljómsveit í eigin nafni til að spila í Glaumbæ og þar söng Svanhildur með sveitinni um nokkurra vikna skeið og skólaðist töluvert með hjálp eiginmannsins.

Það fór svo að þegar Ólafur Gaukur stofnaði nýja sveit haustið 1965 sem fékk nafnið Sextett Ólafs Gauks fóru hjólin að snúast fyrir alvöru. Svanhildur söng með sveitinni ásamt Birni R. Einarssyni básúnuleikara og saman mynduðu þau söngpar sem sló í gegn en sextettinn lék sem húshljómsveit í Lídó næstu misserin. Í byrjun árs 1967 kom svo fyrsta plata sextettsins út, fjögurra laga smáskífa á vegum SG-hljómplatna en tvö laganna slógu í gegn, Því ertu svona uppstökk þar sem Björn var aðalsöngvarinn og svo Segðu ekki nei með Svanhildi í aðal hlutverki og hefur lagið æ síðan verið eitt af einkennislögum hennar.

Svanhildur 1964

Þar með var ekki aftur snúið, um svipað leyti var Ríkissjónvarpið að taka til starfa (fór í loftið haustið 1966) og sveitin var fengin til að koma fram í þætti sem hlaut nafnið Hér gala gaukar og það var ekki lítil kynning fyrir sextettinn því hartnær öll þjóðin (að minnsta kosti þeir sem höfðu aðgang að viðtækjum) sáu þáttinn, þá hafði sveitin einnig áður komið fram í útvarpinu og varð því sumarið 1967 orðin landsfræg.

Næstu árin má segja að hafi verið hápunktur söngferils Svanhildar, strax um haustið kom út önnur fjögurra laga skífa sem m.a. hafði að geyma Húrra nú ætti að verða ball sem einnig varð vinsælt. Um svipað leyti höfðu orðið mannabreytingar í sveitinni, þremur ungum mönnum var skipt inn í hana til að mæta þörfum yngra fólksins og meðal þeirra var bassaleikarinn – og söngvarinn Rúnar Gunnarsson sem þá hafði öðlast landsfrægð sem söngvari Dáta. Þessar innáskiptingar lukkuðust prýðilega og sextettinn yngdi ballprógrammið töluvert með bítlalögum en sveitin hafði fram að því þótt fremur gamaldags. Sveitin lék um veturinn í Lídó og gerði einnig sex sjónvarpsþætti til viðbótar þar sem hópurinn þótti fara á kostum í leiknum og sungnum atriðum sem að mestu voru skrifuð af Gauknum. Svanhildur og Rúnar voru að vonum fyrirferðamest þar enda aðal söngvarar sveitarinnar, og nutu þættirnir gríðarmikilla vinsælda og sagan segir að þættirnir hafi einnig verið seldir til Svíþjóðar.

Sextett Ólafs Gauks nýtti veturinn einnig til að hljóðrita nýtt efni og undirbyggja jarðveginn fyrir sumarið 1968, um vorið kom þriðja fjögurra laga smáskífan út og sú fyrsta með Rúnari. Bjössi á Hól varð vinsælt í meðförum Svanhildar en Undarlegt með unga menn sló í gegn sungið af Rúnari, á plötunni söng Svanhildur einnig lagið Ef bara ég væri orðin átján en það lag höfðu þau flutt í  söngleiknum „Skrallað í Skötuvík“ sem var í einum sjónvarpsþáttanna.

Sextettinn nýtti vinsældirnar og fór í sinn fyrsta sumarballtúr um landsbyggðina, og lék á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um svipað leyti og breiðskífa sveitarinnar Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson kom út, á þeirri plötu voru mörg lög sem urðu að sígildum gullmolum í meðförum söngvaranna – hér eru nefnd lögin Þar sem fyrrum, Góða nótt, Ágústnótt, Ég vildi geta sungið þér, Gamla gatan, Vorvísa (Ég heyri vorið), Heima, Vor við sæinn (Bjartar vonir vakna) og Sólbrúnir vangar auk annarra þar sem Rúnar var aðalsöngvari. Þetta sumar festi sextettinn og auðvitað Svanhildur og Rúnar sig í sessi sem ein af allra vinsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar.

Eftir öfluga sumarvertíð sem lauk í september hóf sveitin að leika aftur í Reykjavík en nú á Hótel Borg og var húshljómsveit þar næstu árin, sveitin lék einnig eitthvað í Þórscafe um veturinn. Fleiri sjónvarpsþættir voru gerðir um haustið.

Rúnar Gunnarsson og Svanhildur

Vorið 1969 kom næsta smáskífa út með Sextett Ólafs Gauks, Svanhildi og Rúnari, og enn bættist við stórsmellur með Svanhildi, Út við himinbláu sundin. Eins og sumarið á undan var talið í balltúr og nú undir yfirskriftinni Húllumhæ, ásamt skemmtikröftum en þar var mest um að ræða héraðsmót framsóknarmanna. Síðsumars bauðst sveitinni að fara til Vestur-Þýskalands þar sem hún dvaldi við spilamennsku um þriggja mánaða skeið en kom heim fyrir jólin þrátt fyrir að hafa boðist að vera lengur því Svanhildur var þá ólétt að öðru barni þeirra hjóna, og fæddi dóttur í byrjun árs 1970. Vilhjálmur Vilhjálmsson hafði komið inn í sveitina fyrir Rúnar um haustið og hann varð nú aðalsöngvarinn á meðan Svanhildar naut ekki lengur við en sveitin var þá sem fyrr húshljómsveit á Borginni – og Þórscafe.

Það leið ekki á löngu þar til Svanhildur komin til liðs við sextettinn á nýjan leik, hún tók við söngnum af Vilhjálmi sem hvarf á braut til að helga sig fluginu en Svanhildur var þá eini söngvari sveitarinnar sem lék á héraðsmótum um sumarið líkt og áður, og þegar haustaði tók Hótel Borg við enn á ný.

Næsta smáskífa Svanhildar með sveitinni kom út um vorið 1971 og þá hafði sveitin tekið upp nafnið Hljómsveit Ólafs Gauks og gekk yfirleitt undir því nafni eftir það enda hafði þá fækkað í sveitinni. Að þessu sinni var um tveggja laga plötu að ræða (gefin út af SG-hljómplötum eins og fyrri plötur sveitarinnar) og þar var að finna stórsmellinn Þú ert minn súkkulaðiís, enn eina klassíkina. Sumartúrinn var að þessu sinni farinn undir yfirskriftinni Hér gala gaukar og einhverjir sjónvarpsþættir voru enn gerðir með sveitinni en um veturinn var Hótel Borg á dagskránni sem fyrr.

Upp úr þessu fór mynstrið að breytast smám saman hjá hljómsveitinni, sumartúrinn var fastur liður árið 1972 og það sama sumar kom loks út sólóplata með Svanhildi, sú plata bar nafnið Ég kann mér ekki læti (eftir einu laganna) og var hvergi til sparað við gerð hennar, vel á annan tug hljóðfæraleikara kom að plötunni og átta manna kór einnig en hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, engu að síður hafði skífan ekki að geyma neinn stórsmell en flest laganna voru erlend við texta Ólafs Gauks. Svo ótrúlegt sem það hljómar hefur þessi plata aldrei verið endurútgefin á geisladisk og þ.a.l. er hún ekki aðgengileg á tónlistarveitum og því illfáanleg.

Shady Owens og Svanhildur

Og önnur plata kom út með Svanhildi þetta árið því fyrir jólin birtist jólaplatan Jólin jólin, sú plata hefur öfugt við plötuna sem kom út á undan orðið að allsherjar klassík því mörg laganna hafa lifað góðu lífi síðan og heyrast enn reglulega spilað á ljósvakamiðlum fyrir jólin auk þess sem lög af henni þykja enn í dag ómissandi á jólasafnplötum. Jólin jólin hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og varð söluhæsta breiðskífa ársins 1972 en Gaukurinn annaðist allar útsetningar og stjórnaði hljómsveitinni sem lék á plötunni en Reynir Sigurðsson stjórnaði stúlknakór úr Álftamýrarskóla sem syngur á henni.

Hljómsveit Ólafs Gauks var nú hætt að starfa fastráðin á skemmtistöðum á veturna en gerði hins vegar meira út á staka dansleiki, næstu árin voru þó héraðsmótin og sumarballtúrarnir fastir liðir yfir sumartímann fram á níunda áratuginn en árshátíðir, þorrablót og barnaböll urðu fyrirferðameiri hjá sveitinni á veturna. Þannig fór sveitin t.a.m. stundum utan til að leika fyrir Íslendingafélög s.s. í Noregi, Bretlandi og víðar en plötuútgáfa varð í framhaldinu minni en áður hafði verið, síðasta smáskífa Svanhildar og hljómsveitar Ólafs Gauks kom út sumarið 1973 og hafði að geyma lögin Ég hugsa til pabba / Ég og þú og við tvö, fyrrnefnda lagið náði nokkrum vinsældum.

Með útgáfu þessarar skífu má segja að nokkur tímamót hafi orðið á ferli Svanhildar þó svo að hún héldi áfram að starfa með hljómsveitinni næstu árin. Breytingin fólst í plötuútgáfunni því á næstu tveimur plötum hennar var eingöngu um að ræða tónlist fyrir börn. Vorið 1974 fóru þau Ólafur Gaukur til Kaupmannahafnar þar sem tekin var upp barnaplatan Svanhildur Jakobsdóttir syngur fyrir börnin en Gaukurinn stjórnaði þar þarlendri hljómsveit sem lék á plötunni. Platan kom svo út fyrir jólin og varð feikivinsæl, í raun má segja að Svanhildur hafi þarna lagt nokkuð nýjar línur í tónlist fyrir börn en framboðið fyrir þann aldurshóp hafði ekki verið boðlegt fram að þessu – og reyndar höfðu kröfurnar svo sem ekki verið miklar heldur. Á undan höfðu komið út stórar plötur með Bessa Bjarnasyni við ljóð Stefáns Jónssonar og Hönnu Valdísi Guðmundsdóttur við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk en hér voru á ferð fjölbreytileg lög úr ýmsum áttum. Í kjölfarið fór Svanhildur að koma fram í æ meiri mæli fyrir framan börn en hljómsveit þeirra hjóna hafði þá einnig töluvert leikið á barnaböllum.

Barnaplatan gekk það vel að önnur slík var unnin árið eftir, reyndar hljóðrituð hér heima í Tóntækni og kom hún út fyrir jólin 1975. Sú plata hét Allir krakkar: Svanhildur syngur barnalög, og þar var fylgt sömu forskrift og á fyrri barnaplötunni – með lögum úr ýmsum áttum. Seinni platan gekk ekki eins vel en hana gaf Ólafur Gaukur út sjálfur.

Eftir útgáfu þessarar plötu leið langur tími uns næsta plata kom út með söng Svanhildar, þau hjónin höfðu starfrækt gítarskóla frá árinu 1975 samhliða hljómsveitarrekstri og um tíma voru þau einnig nokkuð viðloðandi Bandaríkin á níunda áratugnum en Gaukurinn fór þar í nám í kvikmyndatónlist, Svanhildur notaði tækifærið um svipað leyti og lauk stúdentsprófi og var um tíma einnig í háskólanámi. Smám saman kúpluðu þau sig út úr ballbransanum enda var Gaukurinn kominn vel á sextugs aldur, var tíu árum eldri en Svanhildur, og sneri sér í auknum mæli að djasstónlist. Svanhildur dróst hins vegar inn í útvarpsþáttagerð árið 1987 og átti eftir að starfa nokkuð samfleytt við dagskrárgerð eftir það, í fyrstu hélt hún utan um Óskalög sjómanna en síðar tóku við ýmsir tónlistar- og spjallþættir þar sem hún naut velgengni og vinsælda ekkert síður en í tónlistinni.

Svanhildur Jakobsdóttir

Dóttir þeirra hjóna, Anna Mjöll kom nokkuð óvænt fram á sjónarsviðið sem söngkona þegar hún lenti í þriðja sæti Látúnsbarkakeppni Stuðmanna sumarið 1988, og í kjölfarið lögðu þær mæðgur ásamt fjölskylduföðurnum drög að jólaplötu sem svo kom út haustið 1989. Sú plata fékk nafnið Jólaleg jól og þótti prýðilegt innlegg í annars fremur bragðdaufa jólalagahefðina hér á landi, á plötunni var að finna hæfilega blöndu þekktra jólalaga og laga eftir Ólaf Gauk sem jafnframt samdi alla texta plötunnar – sumir þeirra voru reyndar löngu þekktir í meðförum annarra. Jólalega jól hlaut góða dóma í Tímanum og DV.

Lítið fór fyrir söngkonunni Svanhildi eftir útgáfu plötunnar, hún vann á þessum tíma fyrst og fremst við dagskrárgerð og það var ekki fyrr um haustið 1994 sem þær mæðgur sendu aftur frá sér plötu saman, það var barnaplatan Litlu börnin leika sér en sú plata innihélt klassískar barnagælur frá ýmsum tímum. Segja má að hér hafi verið á ferð eins konar fjölskylduverkefni eins og jólaplatan 1989 en útgáfufyrirtæki þeirra hjóna Tónaljón gaf plötuna út.

Síðan um þetta leyti hefur Svanhildur ekki komið oft fram og sungið opinberlega en þó minnir hún reglulega á sig með einum eða öðrum hætti og hefur í raun aldrei hætt að syngja. Árið 1994 var hún til að mynda meðal fjölmargra sem heiðruðu minningu Hauks Morthens með tónleikum en hún hefur einnig komið fram og sungið á einstaka dansleikjum s.s. þegar KK sextettinn kom saman á dansleik tengdum danslagakeppni í tilefni af ári aldraðra 1999, Sextett Ólafs Gauk kom einnig saman seint á fyrsta áratug nýrrar aldar og kom hún þá einnig um svipað leyti fram með hljómsveitinni Furstunum. Þá fékk hljómsveitin Nýdönsk Svanhildi til að syngja lagið Á sama tíma að ári ásamt Birni Jörundi söngvara sveitarinnar í tengslum við sýningu á samnefndri leiksýningu árið 2002 og þannig mætti áfram telja.

Eftir andláts Ólafs Gauks sumarið 2011 hélt Svanhildur rekstri gítarskólans áfram um tíma eftir andlát hans en hefur síðan starfað við þáttagerð í útvarpi – hefur t.a.m. séð um Óskastundina sem er vinsæll útvarpsþáttur, en hefur einnig kom fram og sungið við hátíðleg tækifæri nánast fram á þennan dag. Hún hefur m.a. sungið reglulega með Önnu Mjöll á tónleikum, sungið á svokölluðum Eyjatónleikum, á afmælistónleikum hljómsveitarinnar Nýdanskrar og í sjónvarpsþættinum Heima hjá Helga [Björns] svo dæmi séu nefnd, þá söng hún einnig lag Hafsteins Reykjalín í jólalagakeppni Rásar 2 árið 2012 en það lag lenti í þriðja sæti keppninnar. Þess má svo geta að Svanhildur hlaut viðurkenninguna Lítill fugl fyrir framlag sitt til tónlistarinnar og kynningar á henni, á Degi íslenskrar tónlistar Haustið 2016.

Eins og hægt er að ímynda sér er söng Svanhildar að finna víða á safnplötum sem komið hafa út í gegnum tíðina, þá gildir einu hvort um er að ræða safnplötur með gömlum dægurlögum, barnalögum eða jólalögum því þar kemur vart út plata með eldri lögum án þess að lag með henni sé þar að finna. Þrátt fyrir það hefur aldrei verið gefin út ferilsafnplata með vinsælustu lögum Svanhildar, sem er í raun ótrúlegt því hæglega mætti fylla tvöfalda eða jafnvel þrefalda slíka plötu – hér er skorað á rétthafa tónlistarinnar að gera gangskör í þeim málum til að halda nafni hennar á lofti.

Efni á plötum