Lexía [2] (1977-93)

Lexía[2] 1990

Lexía

Lexía hét húnversk hljómsveit og þótti öflug í sveitaballamenningunni norðan lands á sínum tíma. Hún afrekaði að koma út einni plötu, en það var fyrsta platan sem gefin var út í Húnvatnssýslu.

Hljómsveitin var stofnuð 1977 að Laugarbakka í Miðfirði og var lengi skipuð mönnum úr sveitinni í kring, þeir voru Axel Sigurgeirsson trommuleikari, Björgvin Guðmundsson gítarleikari, Guðmundur Þór Ásmundsson söngvari og hljómborðsleikari, Marinó Björnsson bassaleikari og Ragnar Karl Jörundsson söngvari (Toxic).

Þannig var sveitin skipuð fyrstu árin og hóf fljótlega að vinna í og flytja frumsamið efni í bland við ábreiðuefni á böllunum. Pálmi Matthíasson sem þá var prestur á Hvammstanga komst yfir snældu með frumsömdu efni sveitarinnar og kom því til nafna síns Guðmundssonar á Akureyri, sem þar rak Tónaútgáfuna. Honum leist nógu vel á efnið til að ákveðið var að ráðast í útgáfu og vorið 1982 kom plata út samnefnd sveitinni en upptökur fóru fram veturinn á undan í Hljóðrita í Hafnarfirði.

Reyndar hættu þeir Björgvin og Guðmundur Þór í Lexíu eftir að upptökum lauk og áður en platan kom út, einmitt í því er til stóð að kynna plötuna. Jón Sverrisson gítarleikari og Jóhann Örn Arnarson hljómborðsleikari komu í þeirra stað, þeir voru frá Blönduósi og eftir það var sveitin kennd við Blönduós, Lexía æfði þó jöfnum höndum á Laugarbakka og Blönduósi.

Platan hlaut þokkalegar viðtökur og seldist í ríflega þúsund eintökum sem þótti vel viðunandi, dómar gagnrýnenda blaðanna voru þó misjafnir, til að mynda fékk platan fremur slaka dóma í DV en góða í Morgunblaðinu. Þess má geta að sjónvarpsauglýsing var gerð til að auglýsa útgáfu plötunnar en slíkt var óvenjulegt á þessum tíma.

Lexía spilaði með hléum til 1993 og urðu nokkrar mannabreytingar í henni á árunum eftir að platan kom út, haustið 1991 kom til dæmis Björn Traustason gítar- og saxófónleikari inn í bandið en fyrir voru þá Marinó og Jón, auk Elínborgar Sigurgeirsdóttur söngkonu og hljómborðsleikara, og Skúla Einarssonar trommuleikara. Einnig hafa Guðbjörg Ragnarsdóttir, Gunnar Smári Helgason, Jóhanna Harðardóttir, Ragnar Karl Ingason, Sigurvald Helgason, Sveinbjörn Dýrmundsson og Torfi Gunnþórsson komið við sögu hennar um skemmri tíma.

1992 átti Lexía lag á safnplötunni Lagasafnið 2 en þá skipuðu sveitina Marinó, Jón, Jóhanna, Guðbjörg og Sigurvald.

Sem fyrr segir starfaði Lexía til 1993 en eftir það lá hún í dvala til 2008 þegar hún var endurvakin og starfaði þá um sumarið. Síðan hefur ekki til Lexíu spurst.

Efni á plötum