Lítið eitt (1970-76)

Lítið eitt 19701

Lítið eitt

Þjóðlagasveitin Lítið eitt starfaði um árabil á áttunda áratug síðustu aldar og skipaði sér meðal þeirra fremstu í þjóðlagageiranum meðan hún var og hét.

Sveitin var stofnuð sem tríó snemma árs 1970 í Hafnarfirði og var þá skipuð Gunnari Gunnarssyni, Hreiðari Sigurjónssyni og Steinþóri Einarssyni, sem allir léku á gítara.

Þeir sáu að slíkt væri ekki til framdráttar og varð úr að Steinþór tók að sér kontrabassaleik, aukinheldur fóru þeir allir að syngja en tríóið hafði verið instrumental fram að því.

Lítið eitt vakti fljótlega athygli enda var sveitin dugleg að koma fram á þjóðlagahátíðum og annars konar skemmtunum, fyrst um sinn lék sveitin mestmegnis erlend þjóðlög við íslenska texta en læddu síðar lögum úr ranni Gunnars inn í prógrammið. Hróður sveitarinnar barst víða og komu þeir m.a. fram í sjónvarpsþáttum og fóru einnig til Þýskalands til að leika. Svo fór að félagarnir gáfu út litla fjögurra laga plötu sem Tónaútgáfan gaf út í upphafi ársins 1972. Þótt fremur lítið færi fyrir þessari útgáfu fékk hún ágætar viðtökur, til að mynda ágæta dóma í Morgunblaðinu og Vikunni.

Svo virtist sem sveitin myndi leggja upp laupana sumarið 1972 þegar Hreiðar hætti í henni en áður en það gerðist gengu þau Jón Árni Þórisson gítarleikari og Berglind Bjarnadóttir söngkona til liðs við Lítið eitt, þar með var tríóið orðið að kvartett.

lítið eitt21

Lítið eitt í sjónvarpssal

Lítið eitt hélt áfram að koma fram þótt ekki væri sveitin jafn áberandi í spilamennskunni og áður, hún fór þó til Lundúna og tók upp stóra tólf laga plötu í Gooseberry hljóðverinu undir stjórn Jónasar R. Jónssonar. Platan kom út fyrir jólin 1973 undir merkjum ÁÁ records og bar titil sveitarinnar, hún hlaut mjög góðar viðtökur og seldist í ríflega fimm þúsund eintökum áður en hún seldist upp. Meiri hluti laganna voru erlend en þeir Gunnar og Jón Árni áttu einnig efni á plötunni, textarnir komu úr ýmsum áttum. Lögin Tímarnir líða og breytast, Heilræðavísur og Piparsveinninn nutu nokkurra vinsælda.

Í raun hætti sveitin störfum fljótlega eftir útgáfu plötunnar sem var nokkuð undarlegt í ljósi velgengni hennar. Til hennar heyrðist því ekkert fyrr en tveimur árum síðar þegar birtist allt í einu ný plata með Litlu einu, þá höfðu sveitarmeðlimir hist í þeim eina tilgangi að taka upp plötu en aldrei var fyrirhugað að fylgja henni eftir með neinum hætti. Platan var tekin upp í Hljóðrita undir stjórn Jónasar R. eins og sú fyrri og var að öllum líkindum sú fyrsta sem tekin var upp í því fornfræga hljóðveri, lögin komu sem fyrr úr ýmsum erlendum áttum en þeir Gunnar og Jón Árni komu einnig við sögu, textar komu úr fórum þjóðskáldanna sem og Vals Óskarssonar sem einnig hafði komið við sögu ljóða fyrri stóru plötunnar. Þessi plata hlaut heitið Til hvers…? og hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda, fékk góða dóma í Dagblaðinu og mjög góða í Tímanum. Hvergi er þó að finna upplýsingar um sölu á henni.

Minningu þessarar sveitar hefur ekki beinlínis verið haldið á lofti og plötur Lítils eins hafa ekki komið út á geislaplötum og því illfáanlegar. Einhver laganna hafa þó komið út á safnplötum eins og Allt það besta (2002), Stelpurnar okkar, annar hluti 1970-94 (1998) og Trúartónar (1999).

Efni á plötum