Oxsmá (1980-85)

Oxsmá

Oxsmá

Hljómsveitin Oxsmá (einnig ritað Oxzmá) var upphaflega hluti fjöllistahópsins Oxtor, sem stofnaður var 1980. Þessi tónlistarhluti hópsins var í upphafi skipaður ungum listnemum, þeim Hrafnkeli (Kela) Sigurðssyni söngvara (Langi Seli og skuggarnir), Axeli Jóhannessyni gítarleikara (Langi Seli og skuggarnir) og Óskari Jónassyni saxófónleikara en fljótlega bættist Kormákur Geirharðsson trommuleikari (Q4U o.m.fl.) í hópinn.

Margir voru viðloðandi Oxsmá um lengri og skemmri tíma meðan hún starfaði og má nefna þá Þórð M. Þórðarson og Jón Sigvalda [?] trommuleikara í því sambandi.

Sveitin hóf að leika opinberlega 1982 og þótti tónlistin allt að því einkennileg, hún var skilgreind í fjölmiðlum sem eins konar pönkabillý (afbrigði af rokkabillý) en mörgum virtist áherslurnar liggja undarlega hjá sveitinni, þeir settu á stundum útlit sitt framar tónlistinni. Einnig varð sveitin þekkt fyrir sviðsframkomu sína en Oxsmá þótti með líflegri sveitum hvað það varðar.

Oxsmá tók þátt í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar haustið 1982 þegar sveitin kom inn fyrir aðra sem heltist úr lestinni á síðustu stundu. Hún komst þó ekki áfram í úrslit keppninnar.

Hljómveitin spilaði strax þónokkuð og vakti athygli þeirra er unnu tónlistina í mynd Kristínar Jóhannesdóttur, Á hjara veraldar (1983). Í kjölfarið var tónlist með sveitinni notuð í myndinni.

Fyrsta afurð hljómsveitarinnar var þó snældan Biblía fyrir blinda sem gefin var út í desember sama ár, sveitin hafði tekið upp tónleika, sendi upptökurnar strax í fjölföldun og gaf út daginn eftir tónleikana í því skyni að fjármagna Amsterdamferð sem ráðgerð var nokkrum vikum síðar. Eitthvað varð þó flumbrugangurinn á útgáfunni vandvirkninni yfirsterkari því helmingur upplagsins (af tvö hundruð eintökum) reyndist ónýtur, ekkert heyrðist á þeim spólum. Snældan seldist þó upp og enginn skilaði sínu eintaki enda hét hún Biblía fyrir blinda og allt eins líklegt að þetta ætti að vera svona. Í dag liggja menn væntanlega á sínu eintaki eins og gulli, hvort sem það er gallað eður ei.

Á Biblíu fyrir blinda er m.a. að finna gullmolann My & my baby, þar sem Bubbi Morthens tók lagið með sveitinni á umræddum tónleikum (aðrar heimildir segja að upptökurnar séu úr æfingahúsnæði sveitarinnar). Nærvera Bubba kemur reyndar hvergi í upplýsingum á umslagi enda var hann samningsbundinn Steinum þegar þetta var og því í raun um samningsbrot að ræða. Sjálfur ku kappinn ekki hafa verið yfir sig hrifinn af tiltækinu en tæplega hefur söfnunargildi snældunnar rýrnað við þetta.

Snemma árs 1984 fór Oxsmá til Hollands og spilaði þar í nokkrar vikur. Þegar heim kom aftur fór sveitin í stutt frí en vakti næst á sér athygli þegar hún sendi frá sér myndband en það var fremur sjaldgæft að sveitir gerðu það og var þess getið í fjölmiðlum sama dag og það var sýnt í tónlistarþættinum Skonrokki.

Þetta sama vor setti sveitin á svið „leiksýninguna“ Oxtor í samvinnu við Stúdentaleikhúsið og höfðu þeir Helgi [?] gítarleikari (sem hafði líklega ekki langa veru í sveitinni) og Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson bassaleikari (Júpiters o.fl.) þá bæst í hópinn. Jón „Skuggi“ Steinþórsson (Langi Seli og skuggarnir o.fl.) var einnig um tíma bassaleikari sveitarinnar og Dan Pollock gítarleikari (Utangarðsmenn o.fl.) en þeir höfðu stuttan stans í Oxsmá. Hörður Bragason (Orgelkvartettinn Apparat o.fl.) hafði ennfremur gerst orgelleikari sveitarinnar og setti mikinn svip á hana.

Hópurinn var fjöllistahópur eins og áður segir og hafði t.a.m. gert tvær stuttmyndir, Oxsmá plánetuna og Sjúgðu mig Nína í leikstjórn Óskars en í síðarnefndu myndinni fékk sveitin (undir nafninu Ígensmei) að njóta sín í tónlistinni, sem var gömul hippatónlist í nýstárlegum útgáfum. Þess má geta að aðalhlutverk myndarinnar voru í höndum Kormáks trommuleikara og Höllu Margrétar Árnadóttur, sem síðar átti eftir að syngja sig inn í hug og hjörtu Íslendinga í Eurovision framlaginu Hægt og hljótt. Tónlistin úr myndinni kom síðan út á snældunni Sjúgðu mig Nína (1984) en hefur verið ófáanleg síðan, myndirnar voru sýndar í nokkur skipti í Regnboganum haustið 1985.

Oxsmá hafði nú getið sér nokkurs orðspors og var ein þeirra sveita sem til stóð að spiluðu á Viðeyjarhátíðinni frægu um verslunarmannahelgina 1984 en af því varð þó ekki eins og kunnugt er því hátíðin var blásin af. Lag með sveitinni kom þetta ár út á safnsnældunni Bani 1.

Sveitin réðist nú loksins í gerð plötu en hún kom út sumarið 1985, var þriggja laga og hét Rip, Rap, Rup. Myndband var gert við eitt laganna, Kittý og varð það eflaust til að ýta undir miklar vinsældir lagsins þetta sumar en það vakti gríðarlega athygli og var kjörið besta myndband aldarinnar á vegum Ríkissjónvarpsins í uppgjöri um aldamótin. Titillag plötunnar varð einnig nokkuð vinsælt.

Svo einkennilegt sem það kann að hljóma urðu þessar miklu vinsældir sveitarinnar einnig banabiti hennar en Oxsmá hætti á hátindi ferils síns, bandið spilaði um haustið í leikritinu Ekkó-guðirnir sem Stúdentaleikhúsið setti á fjalirnar en hélt sína lokatónleika á Borginni og var þar með hætt störfum.

Þrátt fyrir að meðlimir sveitarinnar væru hættir að starfa undir þessu nafni átti hluti hópsins eftir að starfa aftur saman undir nafninu Langi Seli & skuggarnir en sú sveit var stofnuð sumarið 1986. Óskar Jónasson sneri sér hins vegar alveg að kvikmyndagerð og átti eftir að verða meðal fremstu kvikmyndagerðarmönnum Íslands í kjölfarið.

Efni á plötum