Sextett Sidda (1970)

engin mynd tiltæk

Sextett Sidda var hljómsveit starfandi í Reykjadal í Suður-Þingeyjasýslu sumarið 1970.

Sveitin var stofnuð þá um vorið og hafði bækistöðvar og æfingaaðstöðu í félagsheimilinu á Breiðumýri en meðlimir hennar voru þeir Hólmgeir Hákonarson söngvari og bassaleikari (Hljómsveit Jóns Illugasonar o.fl.), Sigurður Friðriksson hljómborðsleikari og söngvari (Hljómsveit Illuga, Fimm o.fl.), Illugi Þórarinsson harmonikku- og hljómborðsleikari (Hljómsveit Illuga o.fl.), Sverrir Haraldsson gítarleikari og Þórhallur Gíslason trommuleikari. Þess má geta að sá síðast nefndi er faðir Róberts Þórhallssonar bassaleikara með meiru.

Sem fyrr segir starfaði sveitin aðeins þetta eina sumar en lék nokkuð oft á dansleikjum einkum þó í sveitinni en einnig allt austur á Raufarhöfn.

Sextett Sidda var í raun kvintett eins og glöggir lesendur hafa sjálfsagt áttað sig á en þeir félagar höfðu sér þó stundum til aðstoðar á sviði stóran tuskubangsa.