Strump-serían [safnplöturöð] (1990-95)

Strump í fótinn - Ýmsir

Strump í fótinn

Strump-serían svokallaða innihélt þrjá titla sem út komu á árunum 1990-95 og gefnir voru út á vegum útgáfu sem bar nafnið Veraldarkeröld, og var í eigu Magnúsar Axelssonar. Fyrstu tveir titlarnir voru í snælduformi en þriðji og síðasti var geislaplata.

Strump-serían telst til neðanjarðarútgáfu, sem fór ekki hátt hjá almenningi en var í staðinn hvalreki á fjörur áhugamanna um slíka jaðartónlist.

Strump kom út síðla árs 1990 og var í snælduformi eins og áður segir. Hún hlaut þokkalegar viðtökur og t.a.m. ágæta dóma í Þjóðviljanum en um var að ræða þrjátíu og tveggja laga snældu með misþekktum flytjendum.

Tvö og hálft ár liðu áður en næsta snælda kom út, Strump 2. Hún hlaut góða dóma í Pressunni en vakti ekki mikla athygli, lögin á henni voru nítján talsins.

Þriðji titillinn í Strump-seríunni kom út haustið 1995 og var geislaplata, hún hlaut heitið Strump í fótinn og í blaðaviðtölum viðurkenndi Magnús Axelsson útgefandi að í titlinum fælist létt skot á aðra safnseríu sem þá var í gangi, Reif-seríuna. Strump í fótinn fékk meiri athygli en fyrri titlar enda var cd-formið aðgengilegra og meira í takt við það sem þá þekktist. Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi. Strump í fótinn var nítján laga eins og Strump 2.

Fleiri plötur komu ekki út í Strump-seríunni enda fá dæmi til um langlífar safnplötuseríur af þessu tagi.

Efni á plötum