Ofl. (1997-2007)

Ofl1

Ofl. frá Selfossi

Hljómsveitin Ofl. frá Selfossi fór mikinn á sveitaböllum og öðrum böllum í kringum aldamótin. Sveitin náði að gefa út stuttskífu 1999 sem minnisvarða um tilurð sína.

Sveitin var stofnuð sumarið 1997 en áður hafði hluti hennar verið í hljómsveitinni Föroingabandið sem starfaði í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og hafði að skipa meðlimum annars vegar frá Selfossi, hins vegar Hvolsvelli. Þegar hinn rangæski hluti Föroingabandsins stofnaði hljómsveitina Land og syni ákváðu Selfyssingarnir að stofna nýja hljómsveit, Ofl.

Meðlimir Ofl. voru Guðmundur Karl Sigurdórsson söngvari, Helgi Valur Ásgeirsson gítarleikari, Leifur Viðarsson bassaleikari, Þórhallur Reynir Stefánsson trommuleikari og Baldvin Árnason hljómborðsleikari.

Ofl. herjaði á sveitaböllin um land allt, lék mikið á Gauki á Stöng og Amsterdam á höfuðborgarsvæðinu og túraði aukinheldur með Sálinni hans Jóns mín. Sveitin lék mestmegnis coverefni en eitt og eitt frumsamið slæddist með, þar á meðal jólalagið Takk fyrir jólin Jesú sem rataði á útvarpsstöðvarnar fyrir jólin 1998 og hlaut nokkra athygli og spilun.

Þannig starfaði sveitin til ársins 2000 þegar hún gaf opinberlega út að hún væri hætt störfum, eitthvað gekk sveitinni þó illa að hætta og hún hefur spilað þó nokkrum sinnum síðan, síðast 2007 en er líklega loksins hætt. Hluti Ofl. poppaði upp í hljómsveitinni Moonstyx nokkru síðar og hafa reyndar verið í nokkrum sveitum í þekktari kantinum.

Ofl. sendi frá sér stuttskífu árið 1999 með fyrrgreindu jólalagi og tveimur lögum að auki. Lítið fór fyrir skífunni enda var upplagið í minna lagi.

Efni á plötum