Orghestar (1981-83)

Orghestar2

Orghestar

Hljómsveitin Orghestar átti sér nokkuð sérstæða sögu en sveitin hafði klofnað frá annarri sveit sem starfaði síðan samhliða þessari, og auðvelt var að rugla þeim saman.

Forsagan er sú að allt frá árinu 1975 hafði hljómsveit verið starfandi undir nafninu Kamarorghestar, bæði í Hveragerði og síðar í Kaupmannahöfn. Sú sveit hafði m.a. að geyma Benóný Ægisson sem ákvað árið 1981 að segja skilið við sveitina í Kaupmannahöfn, sem hann hafði reyndar átt sjálfur þátt í að stofna, og halda heim til Íslands. Þar stofnaði hann nýja sveit undir nafninu Orghestar og fékk til liðs við sig Gest Guðnason gítarleikara, Brynjólf Stefánsson bassaleikara og Sigurð Hannesson trommuleikara. Sjálfur söng Benóný, spilaði á hljómborð og saxófón.

Sveitirnar tvær, Kamarorghestar og Orghestar voru því samtíða, í sitt hvoru landinu reyndar, en auðvelt var að rugla þeim saman þegar fjölmiðlar fjölluðu um þær í einhverri mynd. Ekki bætti úr skák að sveitirnar voru báðar skipaðar flippuðu fólki sem fannst gaman að skemmta sér, spiluðu eins konar skrýtipopp og voru á köflum eins og fjöllistahópur þar sem stutt var í leiklistina. Og ekki minnkaði ruglingurinn þegar Kamarorghestarnir komu heim til Íslands sumarið 1981 og héldu nokkra tónleika hér á landi.

Orghestarnir spiluðu nokkuð víða 1981, einkum í framhaldsskólum og sýndu í leiðinni ásamt aukafólki leikritið Eggjun Jófríðar Signýjar eftir forsprakkann Benóný, í anda fjöllistarinnar, sveitin lék víðar þetta árið og varð m.a.s. svo fræg að Karl J. Sighvatsson orgelleikari kom fram með henni að minnsta kosti einu sinni í uppfærslu leikritsins, sem og á styrktartónleikum sem hann stóð fyrir í Þjóðleikhúsinu. Reyndar er einnig heimild að finna sem segir að Gréta Sigurjónsdóttir gítarleikari Dúkkulísanna hefði spilað með sveitinni.

Orghestar og Karl Sighvatsson

Orghestar ásamt Karli Sighvatssyni

Um haustið 1981 réðist sveitin í upptökur á stóra fjögurra laga 45 rpm plötu, eitthvað voru menn blankir svo illa gekk að koma henni út en það hafði loksins í upphafi árs 1983. Sveitin var þá hætt störfum. Á plötunni má heyra lög sem flest voru eftir Benóný en Gestur samdi eitt þeirra, Benóný samdi einnig textana. Eitt laganna, Lafir það litla, átti eftir að koma út aftur sextán árum síðar í flutningi Súkkat, á plötunni Ull.

Platan hlaut nafnið Konungar Spaghettísfrumskógarins, fékk neikvæðar undirtektir flestra gagnýnenda. Hún fékk reyndar ágæta dóma í Þjóðviljanum og þokkalega í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar en gagnrýnendum DV og sérstaklega Morgunblaðsins var sannarlega ekki skemmt og agnúuðust sérstaklega út í sérstæðan söngstíl Benónýs. Einhver blaðaskrif urðu reyndar í kjölfarið um gagnrýni tónlistarskríbents DV þar sem sitt sýndist mönnum. Platan er þó sérstaklega sjaldgæf og sjaldséð í dag og þykir mikil gersemi.

Efni á plötum