
Yukatan
Reykvíska hljómsveitin Yukatan er ein þeirra sveita sem sigrað hafa Músíktilraunir án þess að sveitarinnar biði beinlínis frægð og frami í kjölfarið. Sveitin náði þó að gefa út efni sem er meira en margar aðrar sveitir í svipaðri stöðu náðu að gera.
Yukatan var stofnuð síðla sumars 1991 í Breiðholti og Árbænum og var alla tíð tríó, meðlimir sveitarinnar voru Birkir Björnsson bassaleikari (Northern light orchestra o.fl.), Reynir Baldursson gítarleikari (Perfect disorder o.fl.) og Ólafur Björn Ólafsson (ÓBÓ) trommuleikari (Unun, Rúnk o.fl.).
Í upphafi lék sveitin instrumental rokk en Reynir gítarleikari tók að lokum að sér sönghlutverkið og söng þegar sveitin tók þátt í Músíktilraunum vorið 1993, það var um einu og hálfu ári eftir stofnun hennar.
Yukatan gerði sér lítið fyrir og sigraði Músíktilraunirnar 1993 og hlaut meðal annars í verðlaun hljóðverstíma sem sveitin nýtti til að gefa út átta laga plötuna Safnar guðum (safnar frímerkjum) á vegum Smekkleysu. Sú plata hlaut ágæta gagnrýni í Pressunni og þokkalega í Morgunblaðinu en auk þess átti Yukatan lög á safnplötunum Núll og nix og Alltaf sama svínið: Smekkleysa í í hálfa öld.
Reyndar kom einnig út þetta sama ára tveggja laga tuttugu mínútna snælda á vegum Bubble records, sem var samnefnd sveitinni, en ekki liggur fyrir hvort sú snælda kom út á undan breiðskífunni eða eftir.
Yukatan starfaði ekki lengi eftir útkomu plötunnar og 1994 var hún hætt störfum en þá var Ólafur Björn trommuleikari farinn að leika með Unun, sem þá var að gera garðinn frægan.
Sveitin kom saman aftur árið 2001 og lék á einum tónleikum.