Kaktus [2] (1973-90)

Kaktus2

Upphaflega útgáfa Kaktusar

Á 20. öldinni var hljómsveitin Kaktus með langlífustu sveitaballaböndunum á markaðnum en sveitin starfaði í sautján ár með hléum. Þótt kjarni sveitarinnar kæmi frá Selfossi var hljómsveitin þó stofnuð í Reykjavík og gerði út þaðan í byrjun en eftir miðjan áttunda áratuginn spilaði hún mestmegnis í Árnessýslu og á Suðurlandi, með undantekningum auðvitað.

Kaktus var stofnuð haustið 1973 og voru stofnmeðlimir hennar Björn Stefán Þórarinsson gítar- og hljómborðsleikari, Árni Áskelsson trommuleikari og Stefán Ásgrímsson bassaleikari. Í upphafi gekk sveitin einnig undir nafninu Kaktus tríó.

Sveitin byrjaði að spila á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins og samanstóð spilaprógram hennar af gömlum slögurum við allra hæfi, m.ö.o. coverefni. Þannig mæltist tónlist Kaktusar vel fyrir og svo fór að sveitin var á upphafsmánuðum sínum tvívegis fengin til að leika á samkomum Íslendinga í New York, síðar átti sveitin m.a.s. eftir að spila einnig á meginlandi Evrópu. Kaktus lék ennfremur á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga sumarið 1974 og átti eftir að spila á þeirri hátíð oftar.

Sumarið 1975 hafði fjórði meðlimurinn bæst í hópinn en það var Helgi E. Kristjánsson gítarleikari en hann var frá Selfossi rétt eins og Björn gítar- og hljómborðsleikari. Um það leyti var sveitin farin að gera út frá Selfossi og komu þeir félagar við sögu á lítilli plötu Björns og Ólafs bróður hans sem bar heitið 200 mílurnar, en hún var gefin út í tilefni landhelgisútfærslu Íslendinga. Þar rödduðu Kaktus-liðarnir.

Kaktus 1978

Kaktus 1978

Ári síðar (1976) kom út eina útgefna lag sveitarinnar (undir eigin nafni) en það var á safnplötunni Í kreppu en á þeirri safnplötu komu fyrir nokkrar hljómsveitir og aðrir flytjendur og léku „krepputengd“ lög.

Helgi staldraði ekki lengi í sveitinni að þessu sinni, aðeins fáeina mánuði, og um vorið hætti Stefán bassaleikari einnig svo Kaktus hætti störfum um tíma yfir sumarið 1976, hún byrjaði þó aftur síðar um haustið og þá hafði Ólafur Þórarinsson (Labbi) bæst í hópinn en hann er bróðir Björns en saman höfðu þeir verið í Mánum frá Selfossi.

Kaktus spilaði áfram en nú var markhópurinn skemmtanaþyrstir Sunnlendingar en sveitin lék nú á hverju sveitaballinu á hverju öðru í Árnes- og Rangárvallasýslu einkum.

Enn urðu breytingar á Kaktusi vorið 1978 þegar Smári Kristjánsson bassaleikari kom inn í sveitina en hann var nú orðinn þriðji Mána-liðinn í henni, hann er einnig bróðir Helga fyrrum bassaleikara. Þarna voru í sveitinni Smári, bræðurnir Ólafur og Björn, auk Árna trommuleikara. Helgi tók sæti Smára bróður síns aftur 1979.

Kaktus 1980

Kaktus 1980

Veturinn 1979-80 urðu enn einu mannaskiptin í sveitinni þegar Guðmundur Benediktsson gítar- og hljómborðsleikari kom inn í Kaktus í stað Björns en Guðmundur hafði einmitt verið í Mánum líka. Það er því engin furða að hljómsveitunum tveimur, Mánum og Kaktus, sé oft ruglað saman.

Á þessu ári (1980) kom út lítil tveggja laga plata með tónlistarmanninum Guðmundi Árnasyni en Kaktus lék undir hjá Guðmundi á þeirri plötu, sveitin lék einnig á plötu bræðranna, Gísla og Arnþórs Helgasona frá Vestmannaeyjum, Í bróðerni en hún kom út 1981.

Um tíma var söngkonan Ólöf Ágústsdóttir með sveitinni en það var þá í fyrsta sinn sem sveitin varð að kvintett.

Þeir Ólafur og Smári fyrrum bassaleikari sveitarinnar stóðu nú í ströngu við þriðja mann við að stofnsetja hljóðverið Nema sem þeir áttu eftir að starfrækja í Glóru í Hraungerðishreppi, þar sem Ólafur bjó. Fyrsta stóra platan sem þar var tekin upp var með Bergþóru Árnadóttur vísnasöngkonu og lék sveitin undir á þeirri plötu sem bar heitið Bergmál. Meðlimir Kaktusar áttu eftir að leika á fleiri plötum sem teknar voru upp í hljóðverinu.

Sumarið 1982 hélt sveitin á sveitaballamarkaðinn sem fyrr en nú í för var ung söngkona sem þó hafði þegar getið sér góðs orðs og gefið út sólóplötu nokkrum árum fyrr en það var hin sautján ára gamla Björk Guðmundsdóttir, hún starfaði þá sem vinnukona hjá Ólafi í Glóru. Hún átti einnig eftir að syngja með hljómsveitinni Mánum sem var endurvakin tveimur sumrum síðar.

Kaktus 1984

Kaktus 1984

Haustið 1982 fór Kaktus í pásu en hún birtist aftur um vorið 1983. Þá höfðu orðið miklar breytingar á sveitinni en auk Ólafs var nú Björn bróðir hans kominn aftur í hana og eiginkona hans, söngkonan og hljómborðsleikarinn Sigríður Birna Guðjónsdóttir, aðrir nýir meðlimir sveitarinnar voru nú trommuleikarinn Gunnar Jónsson og bassaleikarinn og söngvarinn Pálmi Gunnarsson, sem þarna var löngu orðinn þjóðþekktur.

Enn og aftur var keyrt á sveitaböllin á heimaslóðum sem þá var heilmikill markaður fyrir, en um haustið lagðist sveitin aftur í kör og sást í þetta skiptið ekki aftur fyrr en ári síðar, haustið 1984. Og það þarf varla að taka fram að enn höfðu orðið breytingar á skipan sveitarinnar, gamli trommarinn Árni var nú aftur sestur á bak við settið en í stað Pálma var nú mættur Magnús Einarsson bassaleikari sem þá hafði m.a. leikið með sveitum eins og Þokkabót. Þess má geta að Kaktus var alla tíð mjög sterk á söngsviðinu en nánast allir meðlimir hennar sungu.

Snemma árs 1985 var skemmtistaðurinn Inghóll á Selfossi vígður og þar átti Kaktus sinn heimavöll um tíma, einkum fram á vorið en félagsheimili Suðurlandsundirlendisins voru fremur nýtt að sumrinu sem vettvangur sveitaballanna. Um haustið 1985 fór Kaktus í sína lengstu pásu meðan hún starfaði og í raun hætti hún þarna um skeið, og að minnsta kosti ein sveit var stofnuð upp úr henni, hljómsveitin Þrívídd, sem starfaði þó stutt.

Tveimur árum síðar, haustið 1987 birtist Kaktus aftur og starfaði líkast til óslitið til ársins 1990 þegar hún hætti endanlega störfum. Haustið 1987 voru í sveitinni hjónin Björn og Sigríður Birna en aðrir Kaktus-liðar voru nýir, þeir Sigurður Helgason trommuleikari (áður með Kikk), Jónas Þórðarson bassaleikari (Ljósbrá o.fl.) og George Fitzgerald en ekki liggur fyrir á hvaða hljóðfæri sá síðast taldi lék.

Í síðustu útgáfu sveitarinnar hafði Guðmundur Benediktsson komið aftur inn fyrir Fitzgerald, og heimildir eru fyrir því að Hilmar Sverrisson hafi leyst Björn af um tíma, líklega í lokin. Engar upplýsingar liggja fyrir um frekari mannabreytingar í Kaktusi síðustu árin en ekki er ólíklegt að einhverjar slíkar hafi átt sér stað.

Sautján hljóðfæraleikarar og söngvarar fóru þessu samkvæmt í gegnum hljómsveitina en þeir gætu allt eins hafa verið fleiri.

Þar með lýkur sögu einnar af langlífustu sveitaballahljómsveitunum, hún kom aftur saman í fimmtugs afmæli Ólafs (Labba) Þórarinssonar árið 2000 en hefur að öllum líkindum ekki leikið opinberlega síðan.