Jörundur Guðmundsson (1947-)

Jörundur Guðmundsson 1978

Jörundur Guðmundsson

Margir muna eftir Jörundi Guðmundssyni skemmtikrafti, hann var kunnastur fyrir eftirhermur sínar en hann fékkst einnig við þáttagerð í útvarpi og jafnvel sjónvarpi auk þess að eiga tónlistarferil á yngri árum.

Jörundur (Arnar) Guðmundsson fæddist á Akureyri 1947 og bjó þar fram á fullorðinsár. Hann var á yngri árum í hljómsveitum og lék á trommur með sveitum eins og Nafnleysingjunum, Pónik og Töktum og starfaði m.a. með söngvaranum Bjarka Tryggvasyni.

Þegar Jörundur fluttist suður til Reykjavíkur um tvítugt hófst hinn eiginlegi skemmtikraftaferill hans en það var snemma árs 1968 sem hann tróð fyrst upp, það var á árshátíð starfsmannafélags Þjóðviljans þar sem hann starfaði en á þeirri skemmtun hermdi hann fyrst eftir opinberlega. Á þeim árum voru eftirhermur eins og Karl Einarsson, Ómar Ragnarsson og fleiri aufúsugestir á öllum skemmtunum og þ.a.l. fyrirmyndir Jörundar.

Orðsporið breiddist fljótlega út og hann fór að skemmta með eftirhermum sínum og stuttum leikþáttum í samstarfi við aðra, s.s. Hrafn Pálsson og Svavar Gests, sem sömdu efnið með honum. Sumarið 1969 fór hann í sína fyrstu ferð með hljómsveit Ólafs Gauks Þórhallssonar í kringum landið og skemmti ásamt fleirum en slíkar ferðir átti hann eftir að fara margsinnis eftir það, héraðsmótin voru einnig vettvangur Jörundar auk árshátíða og þorrablóta. Jörundur átti eftir að skemmta með mörgum öðrum skemmtikröftum og m.a. má nefna Þórskabarett sem hann setti á fjalirnar ásamt Halla og Ladda, hann vann einnig með Júlíusi Brjánssyni og fleirum.

Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á Jörundi voru nóbelsskáldið Halldór Laxness, Örnólfur Thorlacius (sem m.a. sá um sjónvarpsþáttinn Nýjasta tækni og vísindi), ráðherrarnir og stjórnmálamennirnir Geir Hallgrímsson og Ólafur Jóhannesson, og leikararnir Árni Tryggvason, Bessi Bjarnason og Gísli Halldórsson en sá síðast taldi var sá eini sem ekki kunni að meta eftirhermuframlag Jörundar í sinn garð, hann neitaði t.a.m. að koma fram í útvarpsþætti sem Jörundur hafði verið gestur í vikunni á undan.

Jörundur Guðmundsson

Jörundur með einhverja uppákomu

Jörundur hefur í blaðaviðtölum sagt frá ýmsu sem hann hefur hent sem skemmtikraftur, hann lenti t.d. eitt sinn í þeirri óþægilegu stöðu á skemmtun hestamanna í Skagafirði að ölvaður maður kallaði ítrekað frammí fyrir honum og var á góðri leið með að eyðileggja skemmtunina með leiðindum sínum þegar Jörundur sagði að munurinn á þeim tveimur væri sá að hann fengi þó borgað fyrir að leika fifl. Sá ölvaði kom þá upp á svið, reif míkrafóninn og statífið af sviðinu og hafði það með sér í burtu. Reyndar var ölvun á þessari skemmtun sem var hluti af hestamannamóti, svo mikil að menn komu jafnvel ríðandi á hestum inn á skemmtunina, sem haldin var í félagsheimilinu Miðgarði í Skagafirði.

Jörundur var að öllum líkindum fyrstur skemmtikrafta á Íslandi til að vera með sérþátt í útvarpinu en þættir hans, Allt í grænum sjó nutu mikilla vinsælda þegar þeir fóru í loftið 1977, síðar átti hann eftir að vera með útvarps- og sjónvarpsþætti af ýmsu tagi, allt frá skemmtiþáttum á borð við Allt í einni kös og upp í spurninga- og spjallþætti síðar meir.

Og skemmtiefni með Jörundi var einnig gefið út, haustið 1977 gáfu SG-hljómplötur út plötuna Jörundur Guðmundsson slær í gegn, en á þeirri plötu var að finna stutta „sketsa“ með eftirhermum en efnið var m.a. samið af „Spóa“ sem var Svavar Gests. Platan hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu en ágæta í Dagblaðinu þótt mönnum þætti slíkt grínefni almennt eldast fremur illa. Jörundur gaf einnig út snældu í samstarfi við Þórhall Sigurðsson (Ladda) árið 1983 en hún hét Á túr eða þannig séð. Litlar upplýsingar er að finna um þá útgáfu en Skífan gaf snælduna út.

Jörundur hætti að skemmta að mestu í kringum 1990 og hefur reyndar fengist við eitt og annað í gegnum tíðina, hann er menntaður hárskeri og rak stofu um tíma, hann hefur unnið starfað við ferðaþjónustu sem fararstjóri, verið veitingamaður, flutt inn sirkusa og starfaði reyndar sjálfur með eiginkonu sinni í farandsirkus um tíma svo fátt eitt sé nefnt en eftirhermurnar hefur hann alveg lagt á hilluna.

Efni á plötum