Pal brothers (1973)

Magnús og Jóhann 1972

Pal brothers

Pal brothers var dúett Magnúsar og Jóhanns en þeir félagar kölluðu sig þessu nafni er þeir störfuðu í Bretlandi og reyndu að slá í gegn þar í landi, samhliða dúettnum starfræktu þeir hljómsveitina Change sem einnig var að gefa út efni um þetta leyti, reyndar höfðu þeir gefið út eina smáskífu sem dúett undir nafninu Change þegar hér var komið sögu.

Þeir Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason höfðu byrjað samstarf sitt heima á Íslandi og gefið út plötuna Magnús og Jóhann hér heima 1972 en Pal brothers nafnið var eingöngu bundið við eina útgefna smáskífu og reyndar einnig aðra óútgefna smáskífu með lögunum Sweet Cassandra og When the morning comes. Sweet Cassandra var einmitt eitt af þeim nöfnum sem til stóð að nefna dúettinn.

Útgefna smáskífan kom út vorið 1973 á vegum bresku Orange útgáfunnar og hafði að geyma lögin Candy girl og Then. Fyrrnefnda lagið náði miklum vinsældum hér heima, var kjörið lag ársins í Morgunblaðinu og fékk einnig einhverja spilun hjá BBC í Bretlandi. Platan fékk þó fremur slaka dóma í Alþýðublaðinu.

Þótt dúettinn starfaði raunverulega aldrei undir Pal brothers nafninu sendu þeir félagar frá sér eitt lag til viðbótar undir því nafni en þó ekki fyrr en tveim árum síðar, það var lagið Peanuts sem kom út á samnefndri safnplöu 1975 á vegum Demant-útgáfunnar. Candy girl kom síðar út á safnplötunni Íslensk poppsaga (1996).

Efni á plötum