
Púff
Hljómsveitin Púff var ein af efnilegum sveitum sem kom fram á sjónarsviðið snemma á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar og átti sinn þátt í að breyta nokkru popptónlistarlandslaginu á Íslandi í kjölfar dauðarokkssenunnar sem þá var var í andaslitrunum en árin á undan því höfðu nokkuð einkennst af ládeyðu í íslenskri tónlist. Púff ól þannig af sér tónlistarmenn sem áttu eftir að verða áberandi í öðrum sveitum.
Púff var stofnuð vorið 1991 í Hagaskóla en birtist ekki opinberlega fyrr en um haustið þegar sveitin hitaði upp fyrir Risaeðluna en Magga Stína önnur söngkona þeirrar sveitar er einmitt systir Sölva H. Blöndal eins Púff-liða. Sölvi var trommuleikari sveitarinnar en aðrir meðlimir hennar voru Ólafur Jónsson söngvari, Sigurjón Árni Guðmundsson gítarleikari, Ólafur Arnar Arthúrsson hljómborðsleikari og Viðar Hákon Gíslason bassaleikari. Þá höfðu nokkrir gítarleikarar farið í gegnum sveitina en alls munu þeir hafa orðið sjö talsins. Einnig mun Úlfur Chaka eitthvað hafa unnið með sveitinni.
Í fyrstu var sveitin nokkuð undir áhrifum frá bresku danstónlistarsenunni sem þá hafði verið í gangi en síðan varð hún nokkru rokkaðri.
1992 varð Púff kvartett en Ólafur hljómborðsleikari var þá hættur, líklega störfuðu þeir félagar bara fjórir eftir það.
Þegar Sölvi Blöndal gekk til liðs við hljómsveitina Júpíters vorið 1993 gekk Þorvaldur Gröndal til liðs við Púff en ekki liggja fyrir upplýsingar um frekari mannabreytingar í sveitinni.
Púff tók upp nokkuð af efni og átti lag á safnplötunni Núll og nix en hún kom út á vegum Smekkleysu 1993 og fyrir jólin komu út tvö lög á safnplötunni FIRE en sveitin var ein þeirra sem stóð að félagsskapnum FIRE (Félag íslenskra rokkhljómsveita erlendis).
Smám saman lognaðist Púff útaf og um vorið 1994 var hún hætt, hljómsveitin 2001 var stofnuð upp úr henni og síðar birtist Kvartett Ó. Jónsson & Grjóni og var að einhverju leyti skipuð sömu meðlimum. Enn síðar poppuðu þeir félagar upp í sveitum eins og The Funerals, Quarashi, Apparat Organ Quartet, Motion boys, Kanada, Halleluwah og Trabant svo fáein dæmi séu hér tilgreind.