Bravó [1] (1964-66 / 2010-)

Þrír fjórðu hlutar Bravós, fyrsta myndin sem birtist af sveitinni í fjölmiðlum

Hljómsveitin Bravó vakti mikla athygli á sínum tíma þótt fæstir hefðu heyrt í sveitinni, hún þótti með eindæmum krúttleg enda mætti e.t.v. kalla þá félaga fyrstu alvöru barnastjörnurnar á Íslandi.

Bravó var stofnuð á Akureyri snemma hausts 1964 og í nóvember birtust fyrstu fréttirnar um þá í fjölmiðlum. Meðlimir sveitarinnar voru þá þeir Þorleifur Jóhannsson trommuleikari, Kristján Guðmundsson söngvari og gítarleikari, Sævar Benediktsson bassaleikari og Helgi Vilberg Hermannsson gítarleikari, þeir voru allir tólf og þrettán ára gamlir. Í upphaflegu útgáfunni af sveitinni var annar trommuleikari en ekki liggja fyrir upplýsingar um nafn hans.

Sveitin kom oftsinnis fram norðan heiða og tróð þá upp sem skemmtiatriði og sem upphitunarband fyrir stærri nöfn, bæði á Akureyri og í nærsveitunum, síðar náðu þeir að teygja prógramm sitt upp í balllengd áður en þeir hættu störfum. Gunnar Ringsted var gítarleikari í Bravó undir það síðasta.

Röndóttir Bravó-bítlar

Þótt sveitin bæri nafnið Bravó festist fljótlega viðskeytið -bítlarnir við þá félaga í heimabænum og voru þeir iðulega kallaðir Bravó-bítlarnir þar. Einkenni sveitarinnar voru þverröndóttar peysur sem voru eins konar hljómsveitarbúningar í anda annarra sveita á þeim tíma.

Stóra stundin rann svo upp þegar Bravó var fengin, ásamt Tempó sem var skipuð örlítið eldri meðlimum, til að hita upp fyrir bresku hljómsveitina Kinks sem hingað kom til landsins og lék á nokkrum tónleikum í Austurbæjarbíói í september 1965. Blöðin blésu þennan atburð nokkuð upp og ungu drengirnir að norðan fóru ekki varhluta af þeirri athygli enda gistu þeir á Hótel Sögu sem hafði opnað þremur árum fyrr. Segja má að ljósmyndarar og blaðamenn hafi fylgt þeim um hvert fótmál og þeir fengu sinn skerf af fimmtán mínútna frægð.

Fjöldi unglinga mættu á tónleikara og sáu sveitirnar spila, og ungsveitirnar Bravó og Tempó fóru auk þess í skemmtiferð með bresku bítlasveitinni en farið var í uppsveitir Árnessýslu og víðar í þeirri ferð.

Bravó

Bravó starfaði til ársins 1966 en hætti þá, hluti sveitarinnar birtist ári síðar í hljómsveitunum Spacemen og Óvissu og enn stærri hluti hennar var í Ljósbrá nokkrum árum síðar.

Bravó kom saman á nýjan leik árið 1982 í tilefni af fimmtíu ára afmæli FÍH, og lék þá á tónleikum tengdri þeirri afmælishátíð. Sveitin var þó ekki með á tvöfaldri plötu með upptökum af tónleikunum, sem kom út í kjölfarið og er því hvergi til á útgefinni plötu. Sveitin kom aftur saman árið 2010 og hefur starfað með hléum síðan.