SG stemmingin rifjuð upp og fönguð

SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu SG-hljómplatna (x3) – ýmsir 
Sena SCD 643 (2014)

4,5 stjarna

SG hljómplötur - ýmsir

SG hljómplötur – ýmsir

Sena sendi nýverið frá sér þrefalda safnskífu sem hefur að geyma fjölbreytt úrval dægurlaga sem Svavar Gests, undir merkjum SG-hljómplatna gaf út á árunum 1964-82, reyndar gaf Svavar út plötur allt til 1984 en það skiptir ekki öllu hér. Tilefni útgáfunnar núna er að fimmtíu ár eru liðin frá því að fyrstu plöturnar komu út en sú allra fyrsta var með Fjórtán fóstbræðrum. Saga SG-hljómplatna er reyndar það merkileg að fyrir tónlistarnörda eins og undirritaðan yrði það eins og hvalreki ef Sena tæki upp á því að láta einhvern skrifa þessa sögu, fyrst plötuútgáfan er á annað borð komin í útgáfu bóka sbr. ævisögur Vilhjálms Vilhjálmssonar, Ellyjar Vilhjálms og Gylfa Ægissonar, sem hafa verið að koma út á síðustu árum.

Allir sem komnir eru til vits og ára þekkja auðvitað SG-hljómplöturnar, muna hvernig var að handleika þessar plötur með gulum miðanum og fyrir mér er þetta sterk minning úr æsku, reyndar vil ég ganga svo langt að segja að plöturnar hafi mótað tónlistarsmekk og –vitund íslensku þjóðarinnar á sínum tíma því eins og menn muna þá var aðeins ein útvarpsstöð starfandi og því var hlutverk Svavars stórt. Smærri plötuútgáfur komu og fóru á þessu tímabili en SG-hljómplötur var aðalútgefandinn. Og hér með viðra ég þá hugmynd opinberlega og legg til að Sena endurútgefi einhverja af þessum titlum, jafnvel nýja titla á vínyl með gamla SG plötumiðanum (auðvitað í hæfilega litlu upplagi) þar sem þeir eiga hvort eð er réttinn af öllum SG katalóginum. Þessi safnplata hefði t.d. verið frábær á vínyl einnig.

En að plötunni sjálfri sem reyndar eru þrjár sem fyrr segir, þar er að finna rjómann af því sem Svavar gaf út og spannar þetta átján ára tímabil. Bæði eru þarna lög af litlum og stórum plötum og úr öllum áttum, undirtitillinn er „75 bráðskemmtileg dægurlög“ en hugtakið „dægurlag“ má sjálfsagt teygja í allar áttir miðað við úrvalið á plötunni. Og þá spyr maður sig hvort ekki hefði mátt bæta við fáeinum lögum í viðbót sem hefðu átt erindi þarna í stað einhverra þeirra laga sem mér finnst ofaukið með systkinunum Vilhjálmi og Elly Vilhjálms, en þau koma við sögu í fimmtán af þeim sjötíu og fimm lögum sem platan hefur að geyma. Þarna vantar t.d. lög Harðar Torfa, Hönnu Valdísar, Þuríðar Sigurðardóttur og harmonikkuleikaranna Grettis Björnssonar og Reynis Jónassonar svo dæmi séu tekin. Einnig hefðu mátt vera þarna lög sem má segja að séu á jaðri þess að flokkast undir dægurlög s.s. með hljómsveitunum Þey og Geysi. En þetta er það eina sem setja má út á þessa útgáfu, að öðru leyti er þetta frábært safn og sýnishorn þess sem Svavar Gests gaf út á sínum tíma.

Veglegur bæklingur sem hefur að geyma sögu Svavars og plötuútgáfu hans, rituð af Jónatani Garðarssyni fylgir plötunni og eykur vægi hennar, og þar er einnig að finna nokkurn fjölda mynda af plötuumslögum SG-hljómplatna.

Ég er sérlega ánægður með lagaröðina þar sem hver hinna þriggja platna hefur að geyma lög í aldursröð, þannig úir öllu og grúir saman rétt eins og útgáfan var hjá Svavari, kórar, harmonikkuleikarar, einsöngvarar, popparar og barnastjörnur í bland við grín og tónlist úr leikritum og söngleikjum, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Það vantar bara nálarsnarkið og þá er stutt í að maður hverfi aftur um fjörutíu ár á vit reykmettaðs andrúmslofts með betrekkaða veggi og marglit teppi, tekkborða með öskubakka og hansahillum. Þannig var SG stemmingin.