Erla Stefánsdóttir [1] (1947-2012)

Erla Stefánsdóttir

Erla Stefánsdóttir

Söngkonan Erla Stefánsdóttir frá Akureyri er klárlega þekktust fyrir flutning sinn á laginu Lóan er komin, sem kom út á sjöunda áratugnum. Hún söng þó inn á fjölmargar plötur á ferli sínum og skemmti víða um land með ýmsum hljómsveitum.

Erla fæddist 1947 í S-Þingeyjasýslu en fluttist síðan til Akureyrar þar sem söngferill hennar hófst, hún gerðist þá söngkona hljómsveitarinnar Póló sumarið 1964 en þeir félagar höfðu séð hana syngja á skólaskemmtun, hún var þá sextán ára gömul.

Haustið 1965 gekk hún til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal sem þá naut mikilla vinsælda en Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari og bassaleikari var um það leyti að hætta í sveitinni. Erla söng með Ingimari í tæplega ár en þá hóf hún aftur að syngja með Póló síðsumars 1967, og var sveitin þá nefnd Póló og Erla. Þá var hún rétt um tvítugt.

Þá um haustið kom út á vegum Tónaútgáfunna fjögurra laga plata með sveitinni með frumraun Erlu sem söngkonu, og innihélt hún það lag sem átti eftir að fylgja Erlu æ síðan, lagið Lóan er komin. Platan hlaut sæmilega dóma í Vikunni og mjög góða í Alþýðublaðinu.

Þegar hér var komið sögu var Erla þunguð af sínu fyrsta barni og varð að leggja niður sönginn um tíma að læknisráði enda erfitt fyrir ólétta konu að standa í ferðalögum og ballstússi við þær aðstæður en hljómsveitin var þá á faraldsfæti. Hún sneri sér því um tíma að barnauppeldi og heimilisstörfum.

Þrátt fyrir að vera minna í sviðsljósinu vegna barneigna söng hún inn á fjögurra laga plötu sem Tónaútgáfan gaf út haustið 1968, á plötunni stjórnaði Sigurður Rúnar Jónsson hljómsveit einvala liðs. Þrátt fyrir að platan innihéldi ekki slíkan smell sem Lóan er komin var, fékk hún mjög góða dóma í Tímanum, Vikunni og Morgunblaðinu og styrkti Erlu mjög sem söngkonu. Platan lenti í öðru sæti yfir bestu smáskífur ársins í sameiginlegri úttekt Tímans og Morgunblaðsins, og hún seldist í um sextán hundruð eintökum.

Póló og Erla

Póló og Erla

Sem fyrr segir söng Erla lítið opinberlega um þetta leyti en þó kom hún fram í tiltölulega nýstofnuðu ríkissjónvarpinu og söng nokkur lög í þætti tileinkuðum henni, hún átti eftir að koma nokkrum sinnum fram í sjónvarpinu á söngferli sínum.

1971 hóf Erla að syngja aftur opinberlega, nú með hljómsveitinni Úthljóð en sú sveit lék einkum norðanlands, á svipuðum tíma söng hún dúett á móti Björgvini Halldórssyni í laginu Byltingarbál, sem kom út á fyrstu stóru plötu Björgvins. Úthljóð starfaði ekki lengi og þegar hún hætti söng hún um tíma með húshljómsveit á Hótel KEA á Akureyri.

Þetta sama ár, 1971 kom út önnur fjögurra laga plata með söngkonunni sem gefin var út af Tónaútgáfunni, hún hafði að geyma erlend lög við íslenska texta. Platan hlaut ágætar viðtökur, þokkalega dóma í Vikunni og mjög góða í Vísi og Morgunblaðinu.

Tveimur árum síðar, 1973 kom út tveggja laga með henni sem hafði að geyma erlend lög við íslenska texta sem fyrr, gefin út af Tónaútgáfunni, í þetta sinn voru norðlenskir hljóðfæraleikarar með henni (Hljómsveit Ingimars Eydal) ólíkt fyrri plötum hennar. Platan hlaut fremur litla athygli, einn sæmilegur dómur birtist um hana og var hann í Alþýðublaðinu.

Eftir þetta tók við skeið þar sem fremur lítið fór fyrir Erlu Stefánsdóttur þótt hún væri að syngja með hinum og þessum hljómsveitum. 1976 kom út safnplatan Eitt með öðru og þar söng hún eitt lag undir eigin nafni, tveimur árum síðar söng hún bakraddir á breiðskífu Óðins Valdimarssonar Blátt oní blátt.

Árið 1981 var Erla svolítið áberandi, annars vegar með hljómsveitunum Vöku og Portó (sem starfaði í nokkurn tíma) og hins vegar þegar hún söng lagið Eftir ballið, sem gestasöngvari á tveggja laga plötu siglfirsku hljómsveitarinnar Miðaldamanna en lagið hafði vakið athygli í Söngvakeppni Sjónvarpsins[1], sem haldin var þetta sama ár og var flutt þar af Ragnhildi Gísladóttur, lagið naut nokkurra vinsælda í meðferð Erlu og kom t.d. út á safnplötunni Næst á dagskrá.

Annars fór lítið fyrir Erlu eftir þetta, á níunda áratugnum kom hún einstöku sinnum fram með Hljómsveit Ingimars Eydal á Akureyri en starfaði einnig með öðrum norðlenskum tónlistarmönnum eins og Gunnari Tryggvasyni og fleirum.

1996 flutti hún suður á höfuðborgarsvæðið, starfrækti Dúettinn knáa ásamt Helga E. Kristjánssyni og var í hljómsveit hans einnig, en var að öðru leyti lítt áberandi í tónlistarlífinu. Erla lést 2012 eftir veikindi.

Erla söng um tuttugu lög inn á plötur, hið síðasta á plötu Ingva Þórs Kormákssonar, Latínudeildin sem kom út árið 2012. Lög hennar frá fyrri tíð hafa komið út á safnplötum í gegnum tíðina og má þar nefna Aftur til fortíðar 60-70 I og III (1990), Óskalögin (1997), Óskalögin 3 (1999), Óskastundin 4 (2005), Svona var 1968 (2008) og Stelpurnar okkar (1994). 2003 kom síðan út platan Sjallaball sem hafði að geyma gamlar upptökur frá Hljómsveit Ingimars Eydal, þar söng Erla einnig.

Efni á plötum

Sjá einnig Póló