Geysir (1972-73)

Geysir1

Geysir

Margir áhugamenn um plötusöfnun þekkja hljómsveitina Geysi og plötu hennar sem SG-hljómplötur gaf út 1974, fæstir þekkja þó sögu sveitarinnar og sérstöðu hennar í íslenskri tónlist.

Geysir átti uppruna sinn að rekja til starfs trúfélags bahá‘ía en sveitin var stofnuð á bahá‘ía þingi í Kaupmannahöfn haustið 1972 af þeim Gísla Gissurarsyni gítarleikara (úr Hafnarfirði) og hinum kanadíska Gordon Kidd sem einnig spilaði á gítar og söng.

Þeir hófu að semja og vinna tónlist ásamt tveimur öðrum Kanadabúum, flautuleikaranum Judy Niblock og bassaleikaranum Len Davidson og gáfu út tveggja laga smáskífu vorið 1973 en hún var tekin upp og unnin í Þýskalandi. Í kjölfarið lék sveitin víða um Evrópu – líklega þó mest á samkomum bahá‘ía enda tónlistin í grunninum trúarlegs eðlis. Platan hlaut ágæta gagnrýni hér heima í Morgunblaðinu og Tímanum.

Hér heima leist Svavari Gests hljómplötuútgefanda nógu vel á sveitina til að gefa út breiðskífu með henni en það var eina platan sem SG-hljómplötur gaf út með enskum textum, en katalógur útgáfunnar spannar ríflega tvö hundruð og fimmtíu titla. Platan hafði verið tekin upp sumarið 1973 en kom út ári síðar, þá hafði Geysir hætt störfum og Svavar keypt upptökurnar. Skífan sem var samnefnd sveitinni seldist mjög illa og virðast fjölmiðlar hér heima hafa verið áhugalitlir um hana, að minnsta kosti finnast engir plötudómar um hana.

Þrátt fyrir að platan hafi ekki farið hátt á sínum tíma hefur hún nokkrum sinnum verið endurútgefin erlendis bæði á vínyl- og geislaplötuformi, m.a. í Frakklandi og Ástralíu.

Efni á plötum