Graham Smith (1941-)

Graham Smith-

Graham Smith með Van der Graaf Generator

Graham Smith setti svip sinn á íslenskt tónlistarlíf um og upp úr 1980, gaf út plötur með poppuðum fiðluleik sínum auk þess að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands og inn á nokkrar plötur. Hann hvarf að því loknu af landi brott.

Smith (f. 1941) hafði lokið fiðlunámi við Konunglega breska tónlistarskólann í London og leikið með ýmsum enskum og skoskum sinfóníuhljómsveitum áður en hann kynntist rokkinu 1971 og leiddist út í villt rokklíferni með tilheyrandi áfengis- og dópneyslu.

Hann hafði m.a. leikið með Peter Hammill og félögum í Van Der Graaf Generator og túrað með sveitinni víða um heim, auk annarra sveita og session verkefna, en fékk haustið 1979 nóg af óreglunni og flutti til Íslands þegar hann rakst á auglýsingu í bresku blaði þar sem auglýst var eftir fiðluleikurum í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hann var fljótur að koma sér inn í hlutina á landinu kalda, lék með sinfóníunni en var aukinheldur duglegur að komast í session verkefni, eitt af þeim verkefnum var tengt plötu sem Magnús Þór Sigmundsson vann að 1980 (sem síðar hlaut nafnið Gatan og sólin) og í framhaldi af því var hljómsveitin Steini blundur stofnuð, sú sveit lék nokkuð opinberlega einkum í tengslum við útgáfu plötunnar.

Graham Smith

Graham Smith

Í kjölfarið lék hann með Magnúsi og Jóhanni Helgasyni víða um haustið, síðar lék hann með hljómsveitunum Head Effects sem í grunninum var sama sveit og Steini blundur, einnig kom hann við sögu hljómsveitarinnar Halifax. Hann lék ennfremur með Jónasi Þóri fyrir matargesti á veitingastöðum, svo dæmi séu tekin. Fleiri session verkefni biðu hans og þegar upp var staðið hafði hann m.a. leikið inn á plötur með Kötlu Maríu, Ingunni Gylfadóttur, HLH flokknum, Pónik, Friðryk og fleirum.

1981 sendi Graham Smith frá sér plötuna Með töfraboga (e. Touch of magic), á henni lék hann íslensk lög, mestmegnis vinsæl dægurlög, og fengu Íslendingar þá fyrst að kynnast nýstárlega nálgun fiðluleikarans á popptónlist en Ólafur Gaukur hafði útsett efnið og gaf plötuna reyndar út líka. Platan hlaut ágætar viðtökur, seldist í um sex þúsund eintökum og fékk þokkalega dóma í Dagblaðinu, Mánudagsblaðinu og Tímanum, og mjög góða í Morgunblaðinu.

Ári síðar (1982) kom út önnur plata, Þá og nú, sem hafði að geyma sömu uppskrift, léttpoppaðar fiðluútsetningar af íslenskum dægurperlum unnar af Ólafi Gauki, minna fór þó fyrir henni en fyrri plötunni og birtist til að mynda aðeins einn plötudómur um hana, en Morgunblaðið gaf henni þar góða dóma. Brian Pilkington hafði myndskreytt plötuumslagið eins og þeirrar fyrstu en hann var eins og Smith, tiltölulega nýfluttur til landsins.

Þetta sama ár kom út snælda á vegum Grammsins sem hafði að geyma upptökur með Smith og Peter Hammill, félaga hans úr Van Der Graaf Generator, hún bar titilinn Modern og var tekin upp á tónleikum í Roxy Theatre í Los Angeles árið 1979. Ekki fór þessi útgáfa hátt og líkast til heyrir þessi snælda í dag undir sjaldséða safngripi.

Graham Smith og Bergþóra Árna

Graham Smith og Bergþóra Árnadóttir

Enn leið eitt ár og 1983 leit ný plata dagsins ljós, að þessu sinni gefin út af Steinum. Viðfangsefnið var einnig með öðrum hætti en á þeim fyrri, uppistaðan var þjóðlög frá ýmsum löndum en þó mest frá Skotlandi og Írlandi en einnig voru þarna lög eftir Smith sjálfan, það var í fyrsta skipti sem hann sendi frá sér eigin efni. Platan, sem hlaut titilinn Kalinka, fékk mjög góða dóma í Tímanum og DV, og jafnvel enn betri í Degi, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum.

Lítið fór fyrir Graham Smith í framhaldinu, 1984 fór hann að starfa svolítið með Bergþóru Árnadóttur trúbador og samstarf þeirra bar ávöxtinn Það vorar: A musical affair, plötu sem kom út 1985. Á henni var að finna efni eftir þau bæði, ólíkt efni sem mörgum þótti passa illa saman. Platan hlaut fremur slakar viðtökur en DV, Morgunblaðið og Helgarpósturinn gáfu henni varla nema sæmilega dóma. Smith átti eftir að vinna meira með Bergþóru, lék til að mynda inn á plötu með henni áður en hann sagði skilið við land og þjóð og fluttist aftur heim til Bretlands.

Litlar upplýsingar er að finna um Graham Smith eftir dvöl hans hérlendis en hér liggja nokkrir minnisvarðar í formi platna og snælda um þennan merka fiðluleikara sem kenndi okkur að hægt er að leika popptónlist með fiðlu.

Efni á plötum