Andlát – Árni Ísleifsson (1927-2018)

Árni Ísleifsson

Árni Ísleifsson tónlistarmaður er látinn, rúmlega níutíu og eins árs gamall.

Árni fæddist í Reykjavík þann 18. september 1927. Hann lauk námi við Verzlunarskóla Íslands árið 1946 og nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, hann var auk þess í einkakennslu hjá Matthildi Matthíasson, Gísla Magnússyni og Rögnvaldi Sigurjónssyni. Hann lauk tónmenntakennaraprófi og kenndi lengi tónlist bæði á höfuðborgarsvæðinu og austur á Egilsstöðum.

Árni var fyrst og fremst píanóleikari en hann lék einnig á víbrafón og trompet en síðarnefnda hljóðfærið kom til sögunnar þegar hann var kominn á efri ár. Hann var aukinheldur tónskáld og útsetjari.

Árni hafði eitthvað leikið með minni hljómsveitum á skóladansleikjum og þess konar samkomum þegar hann réði sig í fyrstu alvöru hljómsveitina sína um miðjan fimmta áratuginn en það var Hljómsveit Björns R. Einarssonar. Í kjölfarið fylgdi Hljómsveit Svavars Gests áður en Árni var með eigin sveit í fyrsta skipti en sú sveit starfaði í Vestmannaeyjum. Síðar starfaði Árni í hljómsveitum Þórarins Óskarssonar, Jan Morávek, Jose Riba, Karls Jónatanssonar og Þorsteins Eiríkssonar. Hann starfrækti auk þess sveitir á ýmsum tímum í eigin nafni af öllum stærðum og gerðum.

Með sumum þessara sveita lék Árni inn á hljómplötur á sjötta og sjöunda áratugnum, t.d. með Steinunni Bjarnadóttur, Ingibjörgu Smith, SAS-tríóinu og Ragnari Bjarnasyni en einnig má nefna plötur barnastjarnanna Soffíu og Önnu Siggu með lögunum Snjókarlinn, Komdu niður o.fl. en Soffía er einmitt dóttir Árna. Síðar (á áttunda áratugnum) lék hann á plötum t.d. Jóhanns Helgasonar og einnig plötu sem hafði að geyma tónlist úr leikritinu Sannleiksfestinni.

Árni fluttist austur á Hérað haustið 1976 og þar átti hann eftir að hafa gríðarlega mikil áhrif á tónlistarlífið á Egilsstöðum og nágrenni, ekki síst í djassgeiranum. Hann kenndi tónlist fyrir austan og stjórnaði samhliða því Karlakór Fljótsdalshéraðs, þá kom hann á stofn og starfaði með ýmsum hljómsveitum á svæðinu, m.a. dixielandssveit en einnig má nefna hljómsveitina Slagbrand sem Árni starfrækti um tíma eystra, sú sveit sendi frá sér tvær hljómplötur, þar af aðra árið 1982 sem hafði að geyma fimm lög eftir hann. Það sama ár (1982) setti Árni saman dixielandhljómsveit sem kom fram á 50 ára afmælishátíð FÍH á Broadway og kom lag út með sveitinni sem gefin var út af sama tilefni.

Árni Ísleifs

Árni lék með fleiri hljómsveitum á Egilsstaða-árum sínum, m.a. Náttfara og BÁM-tríóinu, hann stofnaði djassáhugaklúbb fyrir austan og ekki má gleyma framlagi hans til Jazzhátíðar Egilsstaða sem hann átti stóran þátt í að koma á fót árið 1988 og var raunar aðalsprautan í henni allt til ársins 2005, og er sú hátíð ein öflugasta hátíð sinnar tegundar hérlendis þar sem fjöldinn allur af tónlistar- og tónlistaráhugafólki kemur við sögu árlega. Árni var sæmdur gullmerki FÍH fyrir það framlag sitt.

Þegar Árni sneri aftur til Reykjavíkur átti hann eftir að starfa að tónlist lengi þótt hann væri kominn á efri ár, hann lék með sveitum eins og Sunnan sex, 56 riff‘s og V.V. kvartett en einnig lék hann nánast til síðasta dags með Stórsveit Öðlinga FÍH. Þá lék hann reglulega fyrir aldraða á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Árni sendi frá sér tvær plötur kominn á áttræðis aldur, sú fyrri – Portrait of a woman kom út árið 2004 og Rökkurblús árið 2007 en síðari platan kom út í tilefni af áttræðis afmælis hans. Tónlistin á þeim plötum var öll eftir Árna.

Árna Ísleifssonar verður minnst sem eins fremsta djasspíanista Íslands, en einnig fyrir framlag sitt til tónlistar- og menningarlífsins á Austurlandi.