Guðmunda Nielsen (1885-1936)

Guðmunda Nielsen

Guðmunda Nielsen

Guðmunda Nielsen er kunn sem eitt fyrsta íslenska kventónskáldið, hún var auk þess kórastjórnandi á Eyrarbakka og tónlistarkennari og átti sinn þátt í að efla tónlistarlíf á Eyrarbakka og þar um kring á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Guðmunda (f. 1885) var dóttir kaupmannshjóna á Eyrarbakka, faðir hennar var danskur en móðirin íslensk. Hún fæddist á Eyrarbakka en nam verslunarfræði og tónlist í Danmörku og varð fljótlega eftirsótt á Bakkanum við undirleik einsöngvara og kóra, hélt sjálf tónleika, stýrði kórum á Eyrarbakka, var organisti staðarins og kenndi aukinheldur á píanó, harmonium og hugsanlega fleiri hljóðfæri. Hún varð með öðrum orðum heilmikill drifkraftur í annars fábreytilegu tónlistarlífi þeirra Eyrbekkinga á þessum tíma.

Guðmunda samdi einnig tónlist sjálf og varð ein fyrst íslenskra kvenna til þess, ekki liggur þó fyrir hversu mikið liggur eftir hana. Hún hafði forgöngu um útgáfu nótnaheftis sem Hljóðfærahús Reykjavíkur gaf út fyrir jólin 1928. Heftið bar heitið Ljóðalög og hafði að mestu að geyma erlend lög, tuttugu og sex talsins en einnig var að finna í heftinu eina tónsmíð eftir Guðmundu sjálfa, lag við gamlar stökur eftir Einar Benediktsson. Lagið Lækurinn er einnig þekkt tónsmíð hennar.

Sem fyrr segir var Guðmunda af kaupmannsættum og því lá beinast við að hún fetaði þá braut, sem hún og gerði. Hún opnaði verslun í heimabænum Eyrarbakka 1919, lét byggja hús undir það sem nefnt var Mikligarður (gengur undir nafninu Rauða húsið í dag) og rak þar verslun í um tvö ár áður en hún fór á hausinn. Um tíma rak hún gisti- og veitingahús í Tryggvaskála við Ölfusárbrú (núna Selfossi) en fluttist til Reykjavíkur þar sem hún rak kökugerð um árabil, einnig gaf hún út blaðið Smiril um stuttan tíma og gaf auk þess út framsækna matreiðslubók sem hafði meðal annars að geyma grænmetisuppskriftir sem þá þóttu nýlunda.

Ljóst er að kona á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar átti ekki mikla möguleika á að lifa af tónlistariðkun og –sköpun, og því var rökrétt að þessi kjarnakona léti meira að sér kveða á öðrum sviðum, en óneitanlega hefðu möguleikar hennar orðið meiri hefði hún fæðst síðar.

Guðmunda lést síðla árs 1936 eftir nokkur veikindi, aðeins fimmtíu og eins árs að aldri, ógift og barnlaus. Hennar hefur stundum verið minnst í tengslum við sögu Miklagarðs/Rauða hússins á Eyrarbakka og verður þar lengi í metum, haldin var minningarathöfn um þessa merku kona 1988 á Eyrarbakka.