Afmælisbörn 24. september 2015

Guðmunda Nielsen

Guðmunda Nielsen

Afmælisbörnin eru tvö í dag:

Garðar (Emanúel) Cortes tenórsöngvari er sjötíu og fimm ára í dag. Garðar stundaði söngnám hér heima á Íslandi og í Englandi og að loknu námi sinnti hann ýmsum söngverkefnum hér heima, bæði á sviði og plötum, hefur t.d. gefið út nokkrar plötur sjálfur. Garðar hefur ennfremur stýrt kórum, stofnað og stýrt stofnunum eins og Söngskólanum í Reykjavík, Íslensku óperunni og Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur.

Guðmunda Nielsen tónskáld og tónlistarfrömuður á Eyrarbakka átti einnig þennan afmælisdag. Guðmunda fæddist 1885, stýrði kórum, annaðist undirleik og kenndi tónlist í heimabæ sínum Eyrarbakka og sinnti þannig ákveðnu frumkvöðlastarfi í tónlistinni þar í bæ en hún var dóttir kaupmannshjónanna í þorpinu. Guðmunda samdi tónlist sjálf og telst vera með fyrstu ef ekki fyrsta íslenska kventónskáldið. Hún lést 1936.