Lagasafnið [safnplöturöð] (1992-99)

Lagasafnið 1 Frumafl - Ýmsir

Umslag fyrstu Lagasafnsplötunnar

Lagasafnið var safnplötusería með innlendum flytjendum, ein lífseigasta sería sinnar tegundar hérlendis. Serían var byggð utan um hugmynd Axels Einarssonar hjá hljóðverinu Stöðinni, og gáfu flytjendurnir (sem oft voru óþekktir einyrkjar og hljómsveitir) sjálfir plöturnar út, því var fyrst og síðast hægt að tala um hugsjónastarf fremur um gróðafyrirtæki. Þær komu út bæði á geisladisk og snældu framan af.

Áhuginn varð strax mikill þegar þetta spurðist út og efni safnaðist á fyrstu plötuna á einni viku, hún kom út sumarið 1992 og hét einfaldlega Lagasafnið 1: Frumafl, strax var hafist handa við að safna lögum á næstu plötu (Lagasafnið 2) sem kom út strax um haustið.

Þriðja platan, Lagasafnið 3, kom út sumarið 1993 en fékk fremur slaka dóma í DV og Morgunblaðinu. Lagasafnið 4 kom út síðar sama ár og hafði að geyma nokkra þekkta flytjendur en síðan liðu tvö ár áður en Lagasafnið 5: Anno 1996 kom út 1996, sú fékk fremur slaka dóma í DV. Lagasafnið 6 kom út 1997 og ekki fékk hún jákvæða dóma í Morgunblaðinu.

Tvö ár liðu þar til Lagasafnið 7: Tyrkland, kom út sumarið 1999 og var sú útgáfa sérstæð að því leyti að hún var gefin út til styrktar fórnarlömbum jarðskjálfta í Tyrklandi, einhver misskilningur var uppi um að útgáfan væri til styrktar baráttu Soffíu Hansen til að fá dætur sínar heim til Íslands en hún stóð þá í frægri forræðisdeilu við Halim Al, tyrkneskan fyrrum eiginmann sinn. Rauðinn krossinn hafði veg og vanda af útgáfu plötunnar í samvinnu við Stöðina og gáfu allir tónlistarmenn vinnu sína. Platan, sem var gefin út með tvenns konar útliti, hlaut ágæta dóma í tímaritinu Sándi.

Byrjað var að vinna að útgáfu næstu plötu, Lagasafnið 8, en sú kom líklegast aldrei út.

Lagasafnið er langlífasta safnplötuserían sem inniheldur efni minni spámanna en langoftast hafa slíkar safnplötur staðið stakar. Einkenni dóma gagnrýnenda um slíkar plötur er að vera fremur slakir, sem er eðlilegt þar sem misgóðu efni úr ýmsum áttum sem raðað er allt að því tilviljanakennt á plöturnar. Slíkar safnplötur eru hins vegar alltaf velkomnar í flóruna og gefur öllum tækifæri til að koma sínu á framfæri í annars erfiðu umhverfi tónlistarútgáfu.

Efni á plötum