Vanir menn (1990-2001 / 2008-11)

Vanir menn á sviði

Það fer ekki mikið fyrir hljómsveitinni Vönum mönnum í íslenskri tónlistarsögu en þessi sveit lék um árabil á dansstöðum borgarinnar auk þess að vera öflug á árshátíðarmarkaðnum, þá komu út nokkur lög með sveitinni á safnplötum.

Vanir menn komu fyrst við sögu árið 1990 og virðist hafa spilað nokkuð stopult opinberlega framan af. Sveitina skipuðu þá þremenningarniar Eyþór Stefánsson gítarleikari, Hallvarður Óskarsson trommuleikari og Leó R. Ólason hljómborðsleikari. Engar upplýsingar er að hafa um hver þeirra annaðist sönghlið sveitarinnar.

Árið 1992 átti sveitin lag á safnplötunni Lagasafnið 2 og ári síðar á plötunni Lagasafnið 3, á síðarnefndu plötunni er Leó sá eini sem fyrr hefur verið nefndur en aðrir voru Páll Elvar Pálsson bassaleikari, Þorsteinn Magnússon gítarleikari og Rafn Erlendsson söngvari en einnig er Birgir J. Birgisson nefndur sem trommuforritari. Ekki liggur fyrir hvort þeir voru meðlimir sveitarinnar eða aðeins session-menn.

Síðar sama ár kom út lag með sveitinni á safnplötunni Lagasafnið 4, þá var söngkonan Þuríður Sigurðardóttir gengin til liðs við þá félaga en hún átti eftir að koma fram með þeim margoft næstu árin. Aðrir meðlimir þá voru auk Leós og Eyþórs gítarleikara, þeir Pálmi Gunnarsson bassaleikari og Ásgeir Óskarson trommuleikari. Í kjölfarið urðu Vanir menn mjög virkir á ballstöðum höfuðborgarsvæðisins og var t.a.m. eins konar húshljómsveit á Fossinum í Garðabæ, en einnig lék sveitin mikið á árshátíðum, þorrablótum og þess konar skemmtunum.

Árið 1996 kom út enn eitt lagið með Vönum mönnum á Lagasafns-safnplötu, þeirri fimmtu í röðinni, þá er um að ræða tríó þeirra Leós, Eyþórs og Viðars Jónssonar söngvara.

1997 virðist sveitin vera orðin dúett en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu það en hér er giskað á Leó og Eyþór, Þuríður virðist hafa sungið með þeim á stundum en sveitin var nú mun sjaldnar auglýst í fjölmiðlum. Þannig mun það hafa verið þar til Vanir menn hættu störfum árið 2001.

Sjö ár liðu þar til sveitin birtist aftur á dansiballamarkaðnum vorið 2008, þá var fjöldi meðlima eitthvað breytilegur en oftast hafa þeir verið tveir. Þegar Þuríður söngkona hélt upp á fjörutíu og fimm ára söngafmæli kom sveitin fram en meðlimir hennar voru þá Leó, Birgir Ingimarsson trommuleikari og Magnús Guðbrandsson [gítarleikari?]. Haraldur Gunnar Hjálmarsson lék einnig stöku sinnum með sveitinni. Fleiri koma við sögu sveitarinnar, Axel Einarsson lék t.d. með Leó undir þessu nafni sem dúett árið 2009.

Vanir menn störfuðu til ársins 2011 hið minnsta en allar frekari upplýsingar um sveitina eru vel þegnar.