Landsbankakórinn (1989-2002)

Landsbankakórinn

Landsbankakórinn

Kór starfsmanna Landsbankans í Reykjavík eða Landsbankakórinn starfaði um árabil og söng við ýmsar uppákomur og tækifæri, hann fór meira að segja utan í söngferðalag í að minnsta kosti eitt skipti en kórinn, sem var blandaður kór, taldi líklega um þrjátíu til fjörtíu manns þegar mest var.

Landsbankakórinn var stofnaður haustið 1989 og var Ólöf Magnúsdóttir fyrst stjórnandi hans en hún stýrði kórnum til árins 1992 þegar Friðrik S. Kristinsson tók við. Hann var með kórinn í tvö ár eða þar til Guðlaugur Viktorsson tók við stjórninni og hélt utan um hana að minnsta kosti til 2001. Litlar upplýsingar er hins vegar að finna um Landsbankakórinn eftir það og líklegast lagðist starfsemin alveg niður 2002, síðustu misserin komu líklega Björn Thorarensen og Jónína G. Kristinsdóttir eitthvað að stjórnun Landsbankakórsins áður en hann lagði endanlega upp laupana.