Litli matjurtagarðurinn (1969-70)

Litli matjurtagarðurinn

Hljómsveitin Litli matjurtagarðurinn var blússveit sem var stofnuð haustið 1969 upp úr annarri slíkri, Sókrates. Sveitin innihélt bassaleikarann Harald Þorsteinsson og gítarleikarana Eggert Ólafsson og Þórð Árnason sem komu úr fyrrnefndri Sókrates en auk þeirra var Kristmundur Jónasson trommuleikari í sveitinni.

Það má segja að einkum hafi gítarsnilli Þórðar vakið athygli á sveitinni en hún varð ekki langlíf, starfaði einungis í nokkra mánuði.

Gítarleikararnir Lárus H. Grímsson (sem reyndar er þekktari hljómborðs- og flautuleikari) og Þorsteinn Magnússon bættust síðan í hópinn og líklega var Árni Sigurðsson söngvari undir það síðasta en sveitin lognaðist smám saman útaf eftir að þeir Þórður og Haraldur gengu til liðs við Pops í stað Péturs Kristjánssonar sem þá var nýhættur í þeirri sveit.

Litli matjurtagarðurinn var líklega alveg hættur störfum sumarið 1970 en nokkrir þeirra matjurtarliða áttu eftir að spila saman í Eik.