MA-kvartettinn (1932-42)

MA kvartettinn2

MA kvartettinn

MA-kvartettinn er án efa vinsælasti söngkvartett íslenskrar tónlistarsögu en hann starfaði um áratugar skeið á öðrum fjórðungi 20. aldarinnar.

Þegar MA-kvartettinn var stofnaður 1932 við Menntaskólann á Akureyri hafði ekki verið til sambærilegur söngkvartett á Íslandi. Þeir félagar, bræðurnir Þorgeir og Steinþór Gestssynir frá Hæli í Hreppum (Steinþór varð síðar alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn), Jakob V. Hafstein frá Húsavík og Jón Jónsson frá Ljárskógum, höfðu þá nýlega heyrt af plötu Comedian Harmonists sem varð síðar þeirra fyrirmynd í söngstíl en allir voru þeir þá nemendur við Menntaskólann á Akureyri. Fyrsta lagið sem þeir félagar æfðu var hins vegar Gamli Nói Bellmanns.

Kvartettinn söng við ýmis tækifæri næstu árin og þrátt fyrir að þeir luku námi héldu þeir samstarfinu áfram og æfðu upp prógram sem þeir fluttu einkum á höfuðborgarsvæðinu en einnig fóru þeir í söngferðir út á land, þeir voru þá allir fluttir til Reykjavíkur. Reglulegar æfingar og tónleikahald hófst þó ekki í raun fyrr en 1935.

Þeir fengu hvarvetna góða dóma fyrir söng sinn og 1937 réðu þeir í fyrsta skiptið píanóleikara en fram að því höfðu þeir sungið undirleikaralausir, þetta var Bjarni Þórðarson píanóleikari (heildsali) en við sama tækifæri var Carl Billich ráðinn til að stjórna hópnum og útsetja.

Þetta samstarf gerði kvartettnum gott og umsagnir fjölmiðla um sönginn urðu enn jákvæðari, þannig hélt samstarfið áfram til ársins 1940 þegar breski herinn lét handtaka Carl Billich og flytja úr landi en hann var austurrískur ríkisborgari. Fyrir vikið lá starfsemi MA-kvartettsins niðri í um ár en þá fengu þeir Árna Björnsson og Emil Thoroddsen tónskáld sér til aðstoðar en þeir störfuðu með kvartettnum til ársins 1942 þegar hann hætti störfum, á tíu ára afmæli sínu en um það leyti lést Jón frá Ljárskógum.

Á þessum tíu árum mun MA-kvartettinn hafa haldið ríflega hundrað tónleika á átján stöðum, auk þess að syngja þrettán sinnum í útvarpið.

Lengi vel var talið að átta upptökur úr vörslu Ríkisútvarpsins væru einu lögin sem til væru varðveitt með kvartettnum (gefnar út 1951 og 52 og síðar endurútgefnar) en árið 2001 fundust þrjár upptökur í viðbót (Vakna Dísa, Nar jaag var en ung Caballero og Untreue) en þær hafa ekki verið gefnar út. Hinar upptökurnar átta voru gerðar 1942 undir stjórn Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara og tónskálds. Lögin voru hins vegar valin af Páli Ísólfssyni og komu fyrst út á fjórum 78 snúninga plötum á vegum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur 1951 (það voru einar af fyrstu plötunum sem hún gaf út) en voru síðar endurútgefnar á 45 snúninga plötum. Mörg ljóðanna við lögin voru eftir Jón frá Ljárskógum.

Plötur kvartettsins seldust alltaf mjög vel og eru þær án vafa söluhæstu plötur þess tíma, t.d. segir Ólafur Þ. Þorsteinsson sagnfræðingur í lokaritgerð sinni, að fyrsta plata þeirra (með lögunum Laugardagskvöld og Næturljóð) hafi að öllum líkindum verið gefin út að minnsta kosti sjö sinnum sem 78 snúninga plata. Aðrar plötur MA-kvartettsins megi án efa setja meðal söluhæstu platna á sjötta áratugnum.

Lög MA-kvartettsins voru enn endurútgefin á sameiginlegri plötu MA-kvartettsins og Smárakvartettsins 1973 (sem er líklega fyrsta svokallað split-plata Íslandssögunnar), hún fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu en lögin komu ekki út á geisladiskaformi fyrr en 1995, á safnplötu kvartettsins sem bar nafn hans. Lög kvartettsins hafa ennfremur heyrst á öðrum safnplötum s.s. Óskastundinni o.fl.

Efni á plötum