Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur (1876-1916)

Lúðurþeytarafélag rvk. 18761

lúðurþeytarafélag Reykjavíkur 1876

Lúðurþeytarafélag (Lúðraþeytarafélag) Reykjavíkur telst með réttu vera fyrsta íslenska hljómsveitin en hún starfaði um fjörtíu ára skeið í kringum aldamótin 1900.

Lúðurþeytarafélagið var stofnað fyrir stuðlan Helga Helgasonar tónskálds en hann hafði árið 1874 orðið vitni að leik konunglegrar danskrar lúðrasveitar sem lék hér á landi í tilefni af þúsund ára þjóðhátíðarafmælis Íslendinga. Hreifst Helgi svo af leik þeirra dönsku að hann fór til Danmerkur ári síðar (1875) m.a. í því skyni að læra slíkan hljóðfæraleik. Samhliða því var hann styrktur með umtalsverðri upphæð til að kaupa hljóðfæri en hann, ásamt nokkrum félögum sínum í Söngfélaginu Hörpu, hafði þá þegar ákveðið að stofna slíka sveit. Helgi kom heim til Íslands með sex lúðra, ekki liggur þó fyrir af hvaða gerð þeir voru.

Vorið 1876 var sveitin, Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur síðan formlega stofnuð og lék hún fyrst opinberlega ári síðar, á afmælisdegi konungs (Kristjáns IX) 8. apríl 1877. Meðlimir þessarar fyrstu útgáfu sveitarinnar voru sex talsins, Gísli Árnason, Eyjólfur Þorkelsson, Sveinn Jónsson, Páll Jónsson og Oddleifur Brynjólfsson, auk Helga sem stjórnaði hópnum og kenndi þeim reyndar jafnframt. Það átti hann eftir að gera allt til ársins 1902 er hann fluttist búferlum til Ameríku en sveitin starfaði þó áfram.

Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur 18821

Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur 1882

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver stýrði henni í fjarveru Helga en hann mun hafa tekið við stjórninni á nýjan leik þegar hann kom til landsins aftur 1914. Reyndar segir ein heimild að um kvintett hafi verið að ræða þar eð Helgi hefði ekki leikið sjálfur með sveitinni. Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur starfaði líklega ekki lengi eftir það en með stofnun hennar var áhuginn vakinn og fleiri slíkar lúðrasveitir höfðu þá þegar verið stofnaðar víðs vegar um landið og ekki var aftur snúið.

Sveitin mátti framan af búa við æfingahúsnæðishallæri og æfði því ýmist utan húss eða í skemmum og geymsluskúrum, sagan segir m.a.s. að einu sinni hafi þeir fengið að æfa í fangaklefa í hegningarhúsinu á Skólavörðustígnum. Þegar Helgi stjórnandi byggði hæð ofan á hús sitt við Þingholtsstræi 1885 var húsnæðisvandræðum sveitarinnar þó lokið.

Sumir vilja meina að Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur sé eins konar undanfari Lúðrasveitar Reykjavíkur en það er ekki rétt, sú sveit var stofnuð 1922 upp úr tveimur öðrum sveitum, Hörpu og Gígju en þær höfðu líkast til báðar starfað samhliða Lúðurþeytarafélaginu. Ruglingurinn kann að stafa að því að Lúðurþeytarafélagið var stundum nefnt Lúðrafélag Reykjavíkur og jafnvel Lúðraflokkur Reykjavíkur.