Musica Nova [1] [félagsskapur] (1960-95)

engin mynd tiltækHægt er að rökstyðja með góðum rökum að stofnun og tilurð Musica nova sé einn af merkilegri atburðum íslenskrar tónlistarsögu og marki ákveðin skil í henni líkt og alþingishátíðin hafði gert þrjátíu árum áður og pönkið gerði tuttugu árum síðar, með tilhneigingu mannskepnunnar til að leita eftir einhverju nýju og oft í út jaðar tónlistarinnar, eins og Musica nova óneitanlega gerði. Oft verða slíkar tilraunir úthrópaðar meðal hins almenna borgara og ekki viðurkenndar fyrr en síðar þegar menn sjá hlutina í víðara samhengi.

Musica nova var félagsskapur ungra tónlistarmanna, sem höfðu í hyggju að leggja áherslu á kynningu á ungum tónskáldum og svokallaðri nútímatónlist, jafnvel elektrónískri tónlist en stofnhópurinn innihélt slík tónskáld.

Stofnendur voru tónskáldin Jón Nordal sem kjörinn var fyrsti formaðurinn, Magnús Blöndal Jóhannsson og Fjölnir Stefánsson en hljóðfæraleikararnir Gunnar Egilson klarinettuleikari, Ingvar Jónasson lágfiðluleikari, Einar G. Sveinbjörnsson fiðluleikari og Sigurður Markússon fagottleikari. Strax fjölgaði mjög í hópnum.

Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í febrúar 1960 og komu flytjendur úr ýmsum áttum.

Það vakti athygli manna að seldar voru veitingar á tónleikum sem hópurinn stóð fyrir en sérstaklega þurfti að taka fram að fólk þyrfti að sitja um kyrrt á meðan flutningi stæði en það hafði þá ekki tíðkast. Það má því segja að auk þess að vekja athygli fólk á ungum tónskáldum og verkum þeirra hafi Íslendingum einnig verið kenndir tónleikasiðir.

Tónleikar og félagsstarf Musica Nova fékk strax góðar viðtökur og efldist hópurinn strax nokkuð, markmiðið var að halda a.m.k. ferna tónleika á ári sem hlutu yfirleitt góða gagnrýni áhorfenda og fjölmiðlamanna. Voru þetta verk af ýmsum toga, kirkjuverk og upp í óperu en mest nýleg hljómsveita- og kammerverk.

Síðastnefndi þátturinn varð til þess að eins konar gjá myndaðist oft á tíðum milli Musica nova og gagnrýnenda en þeim fyrrnefndu fannst gagnrýnendurnir afhjúpa kunnáttuleysi sitt á nútímatónlist á neyðarlegan hátt þegar þeir birtu krítik sína.

Þá fóru að renna á suma tvær grímur þegar framandi tegundir nútímatónlistar fóru að heyrast á þessum tónleikum, það átti jafnt við um þegar hópurinn flutti inn erlenda tónlistarmenn til tónleikahalds sem og þegar flutt voru slík verk eftir íslensk tónskáld eins og Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Magnús Blöndal Jóhannsson en svokölluð elektrónísk tónlist var þá örlítið að ryðja sér til rúms meðal ungtónskálda.

Annars konar tilraunir fóru að heyrast líka sem fólki fannst lítt skyldar tónlist og varð forviða í byrjun enda ekki vant að skrúfur eða straujárn væru notuð til tónlistarflutnings og því urðu uppákomur sem Musica nova stóðu fyrir umdeildar en vöktu um leið mikla athygli.

1965 var sérstaklega skemmtilegt hvað þessar uppákomur varðar en strax á fyrstu tónleikum þess árs var tónninn gefinn þegar Atli Heimir og fleiri fluttu verkið Octet ´61 eftir Cardew, en þar sem hann lék á píanóið á sviðinu kom kona inn á sviðið og settist m.a. á nótnaborðið, ennfremur var kveikt á útvarpi og fleiri í þeim dúr á meðan á gjörningnum stóð. Fleira slíkt var á boðstólum á þeim sömu tónleikum og var gagnrýnendum lítt skemmt. Um sömu mundir héldu þeir Musica nova félagar sýningar á svokölluðun tónmyndum á Mokka.

Hámarki náði þó dramatíkin á uppákomu vorið 1965 þegar gestir á vegum Musica nova, þau hin bandaríska Charlotte Mooreman og Kóreubúinn Nam June Paik, fluttu gjörning sem hneykslaði heldur betur en þar var leikið á ýmis hefðbundin og óhefðbundin hljóðfæri, þau sprengdu blöðrur með logandi vindlingi, spiluðu á píanó með snuð uppi í sér, sú bandaríska lék á selló og steig síðan ofan í olíutunnu, kom þaðan aftur rennblaut en Kóreumaðurinn drakk m.a. vatn úr skó sínum, makaði sig allan í raksápu af því er talið var og „múnaði“. Margir gengu út og fannst verkið eiga lítið sameiginlegt með tónlist, jafnvel nútímatónlist.

Tíminn sagði frá því í framhaldinu að a.m.k. tveir tónlistargagnrýnendur hefðu gengið út, enda varð gagnrýnin ansi hörð í öllum fjölmiðlum þar sem menn áttu von á meiri tónlist en raun varð á. Gárungarnir voru þó ekki lengi að skíra félagsskapinn upp á nýtt Bossa nova. Í kjölfarið sendi Musica nova frá sér eins konar afsökunar yfirlýsingu um málið, og þar kom m.a. fram að uppákoman hefði ekki átt neitt skylt við yfirlýst markmið félagsskaparins.

Í kjölfarið stilltu þeir Musica nova-liðar sig og ekki urðu viðlíka samkomur aftur, reyndar virtist mesti móðurinn hafa runnið af hópnum við þetta, aðsóknin fór minnkandi á tónleika þeirra eftir hneykslið um vorið og smám saman varð minna úr athyglina af hálfu fjölmiðla.

Starfsemin hélt þó áfram næstu árin og þeir tónleikar sem hópurinn stóð fyrir fengu yfirleitt góðar viðtökur, sem og annað það sem hann kom að í samstarfi við aðra.

Frá og með vorinu 1971 lagðist tónleikahald á vegum hópsins niður um tíma og virtist sem Musica nova væri þá í andastlitrunum en eitthvert lífsmark var þó með hópnum sumarið 1973. Eftir það má segja að ekkert hafi gerst næstu árin.

Það var síðan ekki fyrr en snemma árs 1981 sem félagsskapurinn var vakinn upp af værum blundi þegar ný kynslóð tónskálda og hljóðfæraleikara tók við keflinu, þau Manuela Wiesler, Snorri Sigfús Birgisson og Leifur Þórarinsson (sem hafði reyndar verið einn öflugastur þeirra Musica nova-liða hér fyrrum) voru kjörin í stjórn endurstofnaðs félags. Reiknað var þá með að starfsemin yrði með svipuðum hætti og áður en til stóð þó að bæta við útgáfu platna, sem þó aldrei varð úr.

Strax var blásið til sóknar og tónlistarhátíðin Skerpla ´81 var haldin með pomp og prakt um sumarið og fékk heilmikið umtal og góðar viðtökur. Aldrei var þó fetað í þær slóðir sem farið hafði verið vorið 1965 enda voru blaðamenn duglegir að minna á þá uppákomu þegar starfsemin var endurvakin, það var þó ekki með sömu hneysklan og fimmtán árum áður heldur fremur í kómísku samhengi.

Níundi áratugurinn var nokkuð góður hvað tónleikahald og aðra starfsemi hópsins snerti en eftir 1990 fór heldur að draga úr, og um miðjan tíunda áratuginn lagðist starfið alveg niður og hefur ekki verið endurvakið.

Þótt starfsemi og tónleikahald Musica nova hafi opnað augu margra fyrir nútímatónlist og sjálfsagt rutt brautina fyrir margt ungskáldið og hvatt það til dáða, verður félagsskaparins sjálfsagt ætíð minnst fyrst og fremst fyrir framlag bandaríska/kóreaska-tvíeyksins sem heimsóttu landann vorið 1965 og gaf mönnum tilefni til umræðu um nútímatónlist næstu mánuðina.

En allt umtal er af hinu góða og ekki er víst að almenningur í miðri bítlabyltingu hefði þekkt nöfn þeirra Atla Heimis Sveinssonar, Magnúsar Blöndal og félaga ef ekki hefði komið til Musica nova.