Reflex (1982-83)

Hljómsveitin Reflex starfaði um tveggja ára skeið, á árunum 1982-83 og vakti þá nokkra athygli.

Stofnmeðlimir Reflex voru þeir Guðmundur Sigmarsson gítarleikari og Ólafur Friðrik Ægisson bassaleikari en fljótlega bættist Heimir Már Pétursson söngvari (síðar fjölmiðlamaður) í hópinn og að lokum kom trommuleikarinn Baldvin Örn Arnarson til leiks.

Þannig skipuð tók Reflex þátt í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT haustið 1982 og komst þar í úrslit, þar má segja að hápunkti sveitarinnar hafi verið náð en reyndar spilaði sveitin einnig á Melarokkshátíðinni nokkrum vikum fyrr um haustið. Þá lék Reflex jafnframt á tónleikum á Klambratúni gegn kjarnorkuvígbúnaði, á Hótel Borg, á tröppum Menntaskólans í Reykjavík og víða í félagsmiðstöðvum, þar til hún lagði upp laupana um haustið 1983.

Reflex lék framsækið rokk undir nokkrum áhrifum frá evrópsku þungarokki og pönki, og hljóðritaði nokkur lög sem þó voru aldrei gefin út.