
Reif í tætlur
Reif-serían er ein vinsælasta og söluhæsta safnplötusyrpan sem sett hefur verið á markað á Íslandi en hún hafði að geyma fimmtán titla (þ.a. tvær tvöfaldar plötur) sem komu út á árunum 1992-97.
Plöturnar sem kenndar voru við rave-danstónlistina upp úr 1990, höfðu þó ekki eingöngu að geyma rave-tónlist heldur danstónlist úr öllum áttum, mest þó erlenda.
Það var helst að íslenskar sveitir eins og Bong, Tweety, Pís of keik, Fantasía og Gigabyte nytu sín þar enda var þetta í raun þeirra vettvangur til að koma tónlist sinni á framfæri þótt einhverjar þeirra gæfu sjálfar út plötur.
Reif-plöturnar voru eftirtaldar (í útgáfuröð); Reif í fótinn (1992), Reif í tætlur (1993), Reif á sveimi (1993), Reif í tólið (1994), Reif í staurinn (1994), Reif í sundur (1994), Reif í skeggið & Dans(f)árið ’94 (1994) (tvöföld plata), Ringulreif (1994), Reif í kroppinn (1995), Reif í runnann (1995), Reif í budduna: Velkomin í partýið / Velkomin í reifið (1995) (tvöföld plata), Reif í skóinn (1995), Reif í botn (1996), Reif í pakkann (1996) og Reif í fíling (1997).