Pís of keik (1990-94)

Pís of keik

Pís of keik

Danstónlist Pís of keik var áberandi á fyrstu árum tíunda áratugarins og átti sveitin nokkur lög á safnplötum og kvikmynd sem vöktu athygli en þegar breiðskífa kom út fjaraði undan henni.

Pís of keik var verkefni Mána Svavarssonar (Gests og Ellyjar Vilhjálms) og Júlíusar Kemp kvikmyndagerðamanns en þeir félagar fengu til liðs við sig söngkonuna Ingibjörgu Stefánsdóttur.

Sveitin var stofnuð vorið 1990 og lét fljótlega til sín taka á safnplötunni Hitt & þetta – Aðallega hitt alla leið með lagið Lag eftir lag, sem átti reyndar upphaflega aðeins að verða eins lags verkefni enda komu nöfn meðlima sveitarinnar hvergi fram.

Lag eftir lag fékk hins vegar nógu góðar viðtökur til að þríeykið hélt áfram samstarfi sínu og opinberuðu um leið nöfn sín. Ári síðar kom lagið Moldrok(k) út á safnplötunni Bandalög 3 og um svipað leyti spurðist út að sveitin væri að vinna tónlist við væntanlega kvikmynd, Veggfóður, sem reyndar var í leikstjórn Júlíusar. Máni annaðist tónlistina í myndinni og Ingibjörg lék aukinheldur eitt aðalhlutverkið í henni.

Pís of keik varð þ.a.l. áberandi í myndinni og á plötu sem út kom með tónlistinni úr henni sumarið 1992. Reyndar seldist platan það vel að Pís of keik var verðlaunuð með gullplötu.

Ingibjörg Stefánsdóttir Pís of keik

Ingibjörg í Veggfóðri

Um líkt leyti átti sveitin ennfremur lag á safnplötunni Icerave sem var eins konar sýnishorn af íslenskri danstónlistarmenningu þess tíma.

Pís of keik hafði fram að þessu mestmegnis starfað í hljóðverum en sumarið 1992 varð sveitin nokkuð áberandi í spilamennsku um allan bæ, ýmist eins og sér eða með öðrum hljómsveitum.

Og tríóið hélt áfram að gefa út stök lög á safnplötum, um haustið 1992 áttu þremenningarnir lög á safnplötunni Reif í fótinn og síðan á Ýkt stöff og Reif í tætlur 1993.

Vorið 1993 fór Ingibjörg sem fulltrúi okkar Íslendinga í Eurovision lokakeppnina sem haldin var á Írlandi þar sem hún flutti lagið Þá veistu svarið / Midnight dancer.

Ingibjörg var því orðið vel þekkt nafn hér heima þegar breiðskífan Do it með Pís of keik kom út um sumarið en plötunnar hafði þá verið beðið með nokkurri óþreyju enda hafði sveitinni gengið allt í haginn með framlagi sínu á safnplötum og í Veggfóðri.

Pís of keik2

Pís of keik 1993

Segja má þó að viðtökurnar hafi valdið nokkrum vonbrigðum, platan hlaut varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Degi en slaka í Pressunni, hún seldist ennfremur lítið.

Það lag plötunnar sem vakti einna helst athygli var Quere me en þar söng móðir Mána, Elly Vilhjálms, eigin texta. Lagið fluttu þau meðal annars í þætti Hermanns Gunnarssonar í Ríkissjónvarpinu, Á tali hjá Hemma Gunn en það var í eina skiptið sem Elly kom fram með Pís of keik.

Þrátt fyrir vonbrigðin héldu Máni, Júlíus og Ingibjörg áfram á sömu braut, Pís of keik átti lög á safnplötunum Reif í sundur og Reif í tólið árið 1994 en lagði nú aðal áherslu á útlönd og átti lög á nokkrum erlendum safnplötum. Þá gaf sveitin út smáskífuna Can you see me á Þýskalandsmarkaði, bæði á geisladiska- og vínylformi (12 tommu).

Þrátt fyrir þessar tilraunir gekk lítið og þegar Máni gekk til liðs við Tweety um haustið 1994 var ljóst að dagar Pís of keik væru taldir.

Ekki heyrðist meira frá sveitinni, Máni ílengtist ekki lengi í Tweety en fór síðan að einbeita sér að stefjatónlist og er án nokkurs vafa þekktastur fyrir Latabæjar framlag sitt í seinni tíð, Júlíus hefur ekki komið nálægt tónlist síðan svo kunnugt er en Ingibjörg hefur skotið reglulega upp kollinum í íslensku popplífi.

Efni á plötum