Fantasía (1994-96)

Fantasía

Danssveitin Fantasía (Fantasia) starfaði um tveggja ára skeið í kringum miðjan tíunda áratug síðustu aldar, átti nokkur lög á safnplötum en náði aldrei að stíga skrefið til fullnustu hvað vinsældir snertir þrátt fyrir tilraunir til að meika það erlendis.

Það var þeir félagar og Akureyringar, Jón Andri Sigurðarson og Trausti Heiðar Haraldsson sem stofnuðu Fantasíu norðan heiða en þeir höfðu þá starfað saman undir nafninu Digit og átt lag í Landslagskeppninni 1992. Þeir félagar voru hluti af félagsskap á Akureyri sem vann nokkrar stuttmyndir sem vöktu athygli og þegar hópurinn gerði myndina Negli þig næst, sáu þeir um að gera tónlistina. Þá gekk ung og efnileg reykvísk söngkona til liðs við þá félaga, Selma Björnsdóttir en hún var þá að stíga sín fyrstu framaspor, og létu þau fjarlægðina milli norðurs og suðurs ekki stöðva sig í samstarfinu. Tómas Gunnarsson gítarleikari gekk svo einnig til liðs við sveitina, Oddur Bjarni Þorkelsson var einnig sveitinni innan handar m.a. sem textahöfundur og gæti jafnvel hafa verið meðlimur hennar um tíma sem gítarleikari.

Um vorið 1994 bauðst sveitinni að vera með lagið Tómarúm á safnplötunni Algjört kúl sem Spor gaf út og fljótlega upp úr því fór boltinn að rúlla og í kjölfarið fylgdu fjölmörg safnplötulög. Strax um sumarið kom næsta safnplata út, Ýkt böst en þar átti sveitin tvö lög sem voru úr Negli þig næst eins og fyrsta lagið, annars vegar N 1 O (Enn einn hring) og hins vegar titillag myndarinnar, Negli þig næst sem þau fengu Stefán Hilmarsson söngvara Sálarinnar hans Jóns míns til að syngja en það lag vakti nokkra athygli og kom sveitinni á vinsældakortið. Og enn eitt lagið, Seven leit dagsins ljós um haustið, á safnplötunni Reif í skeggið / Dans(f)árið. Að þessu sinni var sungið á ensku og áherslurnar örlítið breyttar í tónlistinni, meira Euro-popp.

Þegar hér var komið sögu voru Akureyringarnir fluttir suður (1995) og því var öll vinna með Selmu söngkonu orðin mun þægilegri, Spor hafði trú á Fantasíu og var bandið eitt af nokkrum í þessum danstónlistargeira sem reynt var að koma á útgáfu- og dreifingarsamninga erlendis. Það varð úr að þau fengu útgáfusamning við þýska fyrirtækið ZYX-music og kom smáskífan Seven út á vínyl og geisladiskaformi í Þýskalandi, það vakti athygli að aðra hlið vínylplötuútgáfunnar þurfti að spila á 33 snúninga hraða en hina á 45 snúningum. Nokkru síðar kom lagið Secret liar út einnig á smáskífudiski, engar sögur fara af gengi laganna þar í landi en fleiri skífur komu ekki út með sveitinni.

Fantasía

Hér heima héldu þau Fantasíu-liðar sínu striki, sveitin lék heilmikið á dansleikjum um sumarið 1995 en yfirleitt með öðrum sveitum s.s. Tweety, Sólstrandargæjunum o.fl., þá höfðu þau bassa- og trommuleik á playbacki. Fleiri lög komu út á safnplötum það árið, lagið Picture this kom út á Reif í kroppinn og áðurnefnt smáskífulag, Secret liar kom út á plötunum Reif í skóinn og Reif í budduna.

Á árinu 1996 hélt Fantasía áfram að starfa fram eftir ári, félagar þeirra Akureyringa voru enn að gera stuttmyndir og um vorið sendu þeir frá sér myndina Gas sem vakti töluverða athygli og einkum fyrir tónlistina sem sveitin vann líkt og áður. Þar fengu þeir þekkt nöfn úr bransanum til að syngja lögin og kom Stefán Hilmarsson aftur við sögu, hann söng titillagið Gas sem varð líklega vinsælasta lag sveitarinnar og fór nokkuð hátt á vinsældalistum en einnig söng Helgi Björnsson eitt lag, Viltu finna? sem hefur þó ekki komið út á plötu, Gas kom hins vegar út á safnplötunni Reif í botn um sumarið.

Fantasía lék nokkuð á dansleikjum um sumarið rétt eins og sumarið á undan, m.a. ásamt Páli Óskari og Milljónamæringunum en um haustið 1996 var látið staðar numið og hefur sveitin ekki starfað síðan.

Efni á plötum